Mikel Arteta þjálfari Arsenal var kátur eftir 2-0 sigur gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Arsenal fer á toppinn með þessum sigri en gæti misst sætið aftur til Englandsmeistara Liverpool sem eru að keppa við Chelsea þessa stundina.
„Það er frábært að vera á toppi deildarinnar þrátt fyrir erfiða leiki í síðustu viku og meiðslavandræði. Við áttum skilið að vinna þennan leik og hefðum getað unnið stærra, við klúðruðum nokkrum dauðafærum. Ég er mjög ánægður með strákana, þeir stóðu sig vel allan tímann," sagði Arteta, en fyrirliðinn Martin Ödegaard meiddist í fyrri hálfleiknum á Emirates.
„Hann fór með hné í hné og fann strax að það var eitthvað að. Við verðum að bíða og sjá hversu alvarleg þessi meiðsli eru. Hann hefur verið virkilega óheppinn með meiðsli."
Bukayo Saka var í byrjunarliðinu og spilaði þar með leik númer 200 fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.
„Þetta hefur verið mögnuð vegferð með honum, hann er stórkostlegur leikmaður og allir elska hann. Hann á ennþá mikið inni, hann er ótrúlega hæfileikaríkur."
Declan Rice var skipt af velli í seinni hálfleik þegar hann fann fyrir miklum bakverk. Hann skoraði fyrra mark leiksins og Saka gerði seinna markið.
„Við verðum að bíða og sjá hvað læknirinn segir með bakið á honum, við vonum það besta."
Þetta var síðasti leikur Arsenal fyrir landsleikjahlé. Næsti leikur liðsins er á útivelli gegn Fulham 18. október.
Athugasemdir