KR og Afturelding skildu jöfn að í mögnuðum leik á Meistaravöllum fyrir skömmu. KR er í botnsæti deildarinnar og eiga tvo leiki eftir af mótinu. Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR mætti í viðtal að leik loknum.
„Það var hrikalega súrt, mjög sárt. Ekkert annað orð yfir það. Ég horfi á þær (lokamínúturnar) að við náðum ekki að stjórna aðstæðum. Mér fannst við hafa stjórnað leiknum ágætlega, oft verið meira með boltann en í seinni hálfleik. Þetta var fyrsta eða annað sinn í sumar að við vorum þéttir, gáfum ekki mikið af færum á okkur en svo missum við einbeitinguna.“
„Við þurftum þrjú stig. Þrjú stig hefði komið okkur upp úr fallsæti í bili en punktur er betra en ekki neitt. Við eigum ennþá möguleika og meðan að við höfum möguleika höldum við áfram, við erum svekktir í kvöld og svo er það ÍBV eftir tvær vikur.“
Hvernig metur þú möguleika KR að halda sér uppi í deildinni?
„Ég met þá góða. Við þurfum að byrja á því að vinna ÍBV. Svo tökum við stöðuna eftir þann leik. Bjartsýnn, ég verð að vera bjartsýnn. Ég get ekki dottið í hyldýpi þunglyndis. Þetta var sárt, svekkjandi og ef að það hefur einhvern tímann verið tími til að sökkva sér í þunglyndi væri það núna í þessu landsleikjahléi. Það er samt enginn tími í það. Við þurfum að vakna á morgun og halda áfram.