Afturelding gerði dramatískt jafntefli við KR á Meistaravöllum fyrr í dag. KR var með eins marks forystu framan af leik, en Afturelding jafnaði úr vítaspyrnu undir lok leiks. KR-ingar svöruðu þá um hæl og komust í 2-1 en Elmar Kári Cogic jafnaði metin á nýjan leik þegar langt var liðið á uppbótartímann.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, mætti í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: KR 2 - 2 Afturelding
„Þetta var stemning og mikið fjör, mér fannst við verðskulda að jafna. Við vorum mjög orkumiklir í seinni hálfleik og síðustu tuttugu mínúturnar. Svo sýnir þetta trúna í liðinu og liðsheildina að brotna ekki við seinna markið þeirra. Við nýtum þessar mínútur í uppbótartíma til að jafna aftur.“
Magnús var rekinn af velli eftir seinna mark KR.
„Mér finnst við verða beittir óréttlæti þar að fá ekki aukaspyrnu í aðdraganda marksins, en við eigum að verja teiginn betur samt sem áður.“
„Kassi er að skýla boltanum í horninu, sem hann er frábær í. Finnur Tómas brýtur á honum og í kjölfarið nær KR fyrirgjöf sem þeir skora úr, í stað þess að við fáum aukaspyrnu og mómentið snúist. Hann var búinn að flauta á svipuð atriði út um allan völl, þetta var mjög skrýtin lína allt í einu þarna, ég var ósáttur við það.“
Það var gaman að sjá stemninguna, það endurspeglar sem við viljum standa fyrir. Það á að vera gaman og gleði í þessu. Mér fannst það gera það í dag. Mér fannst við líka verjast frábærlega, KR ógnaði ekki markinu okkar mikið í leiknum. Ég tek þetta stig en mér finnst það minnsta sem við áttum að fá út úr þessu.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.