Man Utd gæti misst Fernandes - Napoli vill Mainoo - Barcelona og Liverpool berjast um Upamecano
banner
   lau 04. október 2025 18:31
Ívan Guðjón Baldursson
England: Chelsea lagði Englandsmeistarana í uppbótartíma
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Chelsea 2 - 1 Liverpool
1-0 Moises Caicedo ('14)
1-1 Cody Gakpo ('63)
2-1 Estevao ('95)

Chelsea tók á móti Liverpool í stærsta leik helgarinnar og lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Miðjumaðurinn Moisés Caicedo tók forystuna fyrir heimamenn með algjöru draumamarki snemma leiks, þar sem skot hans af rúmlega 20 metra færi rataði beint undir samskeytin. Giorgi Mamardashvili átti aldrei möguleika.

Það var lítið að frétta í fyrri hálfleiknum þar sem hvorugt lið gaf færi á sér. Chelsea vildi fá dæmda vítaspyrnu eftir samskipti Dominik Szoboszlai við Alejandro Garnacho innan vítateigs en dómarateymið mat snertinguna ekki vera nægilega mikla til að dæma. Leikmenn Liverpool komust í tvígang í fínar stöður til að jafna metin en hittu ekki á rammann svo staðan var 1-0 í leikhlé.

Síðari hálfleikurinn byrjaði rólega þar sem Enzo Maresca og Arne Slot gerðu áhugaverðar skiptingar og svo jöfnuðu Englandsmeistararnir upp úr þurru. Dominik Szoboszlai hljóp upp hægri vænginn og gaf fyrirgjöf sem Alexander Isak stýrði snyrtilega til Cody Gakpo, sem skoraði af stuttu færi.

Leikurinn teygðist mikið út eftir jöfnunarmarkið þar sem bæði lið reyndu að finna sigurmark. Heimamenn voru þó hættulegri, Ryan Gravenberch skoraði næstum því sjálfsmark og átti Enzo Fernández skot í stöng eftir frábæra fyrirgjöf frá Estevao í upphafi uppbótartímans.

Sjö mínútum var bætt við og tókst Chelsea að finna sigurmark undir lokin, þegar Brasilíumaðurinn ungi Estevao skoraði eftir góðan undirbúning frá Enzo Fernández og Marc Cucurella.

Lokatölur 2-1 fyrir heimsmeistara Chelsea, sem eru með 11 stig eftir 7 umferðir. Liverpool er í öðru sæti eftir þetta tap, með 15 stig.

Þetta er þriðji tapleikur Liverpool í röð í öllum keppnum eftir að hafa beðið lægri hlutar gegn Galatasaray og Crystal Palace á síðustu viku.
Athugasemdir
banner