KR-ingar eru áfram á botninum í Bestu deildinni eftir eina ótrúlegustu dramatík sumarsins er liðið gerði 2-2 jafntefli við Aftureldingu á Meistaravöllum í dag. Skagamenn unnu fimmta leikinn í röð er þeir lögðu ÍBV, 2-0, á Hásteinsvelli og færa sig nú lengra frá fallsæti.
KR-ingar voru að ganga í gegnum ótrúlega erfiðan kafla og ekki unnið í fimm leikjum í röð fram að leiknum gegn Aftureldingu í dag.
Liðin voru í tveimur neðstu sætunum og því afar stór stig undir á Meistaravöllum.
Eiður Gauti Sæbjörnsson kom KR yfir á 13. mínútu leiksins eftir að hafa átt stórglæsilega fyrstu snertingu áður en hann afgreiddi boltann snyrtilega í vinstra hornið.
KR-ingar mun betri í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér margar góðar stöður, en náðu ekki að bæta við fyrir hálfleik. Staðan 1-0 í hálfleik en gestirnir frá Mosó fóru að banka aðeins á dyrnar í þeim síðari.
Hrannar Snær Magnússon átti skalla eftir klukkutíma leik sem Halldór Snær Georgsson varði.
Stuttu síðar gátu KR-ingar tvöfaldað forystuna er Jökull Andrésson, markvörður Aftureldingar, lék sér að eldinum og náði ekki að handsama boltann. Boltinn datt á Michael Osei Akoto sem átti laflaust skot sem var hreinsað frá og þá fékk Aron Sigurðar aðra tilraun en Jökull sá við honum.
Afturelding sótti duglega á lokakafla leiksins í leit að jöfnunarmarki og dró heldur betur til tíðinda á lokamínútunum er Gyrðir Hrafn Guðbrandsson braut á Hrannari í teignum.
Aron Elí Sævarsson steig ískaldur á punktinn og sendi Halldór í vitlaust horn.
Dramatíkin var rétt að byrja. KR-ingar tóku forystuna í uppbótartíma er Akoto stangaði fyrirgjöf Arons Sigurðar í netið og ætlaði allt um koll að keyra.
Afturelding svaraði um hæl. Eftir hraða sókn áttu gestirnir skot í stöngina, þaðan út á Elmar Kára Enesson Cogic sem fleygði sér á boltann og náði einhvern veginn að tækla hann í netið.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, fékk rauða spjaldið í öllum látunum og verður ekki á hliðarlínunni í næsta leik liðsins gegn Vestra.
Risastór stig hjá Aftureldingu og liðið áfram í næst neðsta sæti með 26 stig en KR á botninum með 25 stig og útlitið alls ekki gott í Vesturbænum þegar tvær umferðir eru eftir.
Fimmti sigurinn í röð og Skagamenn nánast hólpnir
ÍA vann 2-0 sigur á ÍBV á Hásteinsvelli sem var fimmti sigur Skagamanna í röð.
Skagamenn eru harð ákveðnir í að halda sér uppi og eru nú nær því.
Viktor Jónsson var nálægt því að koma gestunum yfir á 26. mínútu, en náði ekki að stýra boltanum í netið. Tíu mínútum síðar fékk Oliver Heiðarsson færi hinum megin á vellinum en setti boltann yfir markið.
Oliver kom sér í dauðafæri á lokamínútum fyrri hálfleiks er hann komst einn á móti Árna Marinó í markinu, en skot hans var alls ekki nógu gott og nokkuð auðvelt fyrir Árna.
Þetta reyndist dýrkeypt fyrir Eyjamenn því nokkrum mínútum síðar kom Gísli Laxdal Unnarsson gestunum í forystu. Haukur Andri Haraldsson fékk boltann á miðsvæðinu, kom honum á Gísla sem keyrði bara í átt að marki og setti hann í hornið.
Skagamenn fengu nokkrar tilraunir til að bæta við fyrri part seinni hálfleiks en vantaði herslumuninn. Annað markið kom þó á endanum er Viktor Jónsson setti boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Marko Vardic.
Sigurinn innsiglaður og Skagamenn nú í 9. sæti með 31 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti, en Eyjamenn í 7. sæti með 33 stig.
ÍBV 0 - 2 ÍA
0-1 Gísli Laxdal Unnarsson ('45 )
0-2 Viktor Jónsson ('75 )
Lestu um leikinn
KR 2 - 2 Afturelding
1-0 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('13 )
1-1 Aron Elí Sævarsson ('90 , víti)
2-1 Michael Osei Akoto ('93 )
2-2 Elmar Kári Enesson Cogic ('95 )
Rautt spjald: Magnús Már Einarsson, Afturelding ('94) Lestu um leikinn
Athugasemdir