Jóhann Berg Guðmundsson, 99 landsleikja maðurinn, var ekki valinn í landsliðshóp Íslands í komandi leikjum gegn Úkraínu og Frakklandi í undankeppni HM.
Hann hefur tekið til máls á Instagram reikning sínum og segir að landsliðið í golfi sé næst á dagskrá og birti mynd af Yas Links golfvellinum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, þar sem hann leikur með félagsliði sínu Al Dhafra.
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari tilkynnti Jóhanni ekki að hann yrði utan hópsins og sagði að aðrir leikmenn stæðu honum framar.
„Það er augljóst að síðasti gluggi fór mjög vel og sá hópur sem var á vaktinni þá stóð sig vel. Við reyndum að hreyfa sem minnst við hópnum frá því síðast. Þeir leikmenn sem eru að spila í hans stöðum eru bara framar að þessu sinni,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í gær.
Jóhann Berg er með 99 landsleiki undir beltinu, en hann missti af síðasta glugga vegna meiðsla en er kominn á fullt með félagsliði sínu, Al Dhafra.
Landsliðið mætir Úkraínu á Laugardalsvelli þann 10. október og fær því næst Frakka í heimsókn þremur dögum síðar.