Víkingur Ó. í Lengjudeild karla hefur fengið gríðarlegan liðsstyrk fyrir seinni hluta Íslandsmótsins en Emmanuel Eli Keke mætir til landsins í kvöld eftir að hafa verið í Gana síðasta hálfa árið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Eli Keke kom fyrst til Víkings árið 2018 og spilaði hann mikilvæga rullu með liðinu áður en sleit krossbönd í ágúst á síðasta ári.
Hann fór í endurhæfingu á Íslandi í vetur en fór heim til Gana í frí fyrr á árinu.
Kórónaveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á allan heiminn sem varð til þess að fríið hans lengdist töluvert en hann snýr aftur til landsins í kvöld.
Þetta er mikill fengur fyrir Ólafsvíkinga en hann var valinn leikmaður ársins hjá félaginu árið 2018 og þá var hann einnig valinn besti leikmaður í 1. - 11. umferð Inkasso-deildarinnar sama ár.
Víkingur hefur glímt við mikil vandræði í byrjun tímabils en Jón Páll Pálmason var látinn taka poka sinn um miðjan júlí og tók Guðjón Þórðarson við. Liðið er með 9 stig í 9. sæti deildarinnar.
Athugasemdir