Heimir Guðjónsson þjálfari FH var svekktur með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans tapaði 3-2 gegn Víking á Kaplakrikavelli.
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 Víkingur R.
„Við náðum ekki í seinni hálfleik að halda boltanum innan liðsins og nýta svæðin milli varnar og miðju. Eins og menn vita, ef þú kemst í gegnum fyrstu pressuna hjá Víking þá er mönnum allir vegir færir. Við gerðum það betur í fyrri hálfleik, við náum ekki að gera það nógu vel í seinni hálfleik. Kannski voru of margir í mínu liði sem að vildu ekki fá boltan. Það svona varð þess valdandi að við fengum ekki þau úrslit sem við vildum. Mér fannst líka að við hefðum átt að fá víti í seinni hálfleik þegar Ekroth tekur Sigga (Sigurð Bjart) niður þegar Bjössi (Björn Daníel) er farinn. Svo fengum við þarna dauðafæri til að jafna leikinn, en það gekk ekki upp í dag. Svo er erfitt að vinna jafn gott lið og Víking ef þú ert að gefa auðveld mörk."
FH er í 4. sæti deildarinnar, jafnir Val á stigum sem er í 3. sæti. Fyrir þennan leik höfðu þeir verið taplausir 6 leiki í röð og því er FH aðallega að horfa upp fyrir sig til að blanda sér í toppbaráttuna.
„Við erum alltaf að horfa upp á við, það er það sem alvöru sigurvegarar gera, þeir horfa upp á við. Við erum í þeirri stöðu að við erum að búa til gott lið sem er samkeppnishæft og það tekur tíma. Svo ertu líka með það að einhversstaðar á leiðinn þá eru hindranir, þetta er ekki bara bein leið. Þá þurfum við að læra af þeim hindrunum og koma sterkari til baka."
Finnur Orri Margeirsson hefur ekki spilað leik síðan í maí, hann var á bekknum í dag og því styttist eitthvað í hann.
„Hann ætti að geta spilað fótbolta eftir kannski vonandi viku, 10 daga. Ég vildi taka hann með í hópinn í dag því hann er bara mikilvægur þessum hóp, topp drengur, og flottur karakter, er alltaf tilbúinn að hjálpa. Það er gott að hafa svoleiðis menn í hóp."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.