Franski framherjinn Thievy Bifouma sá tækifæri á því að spila gegn portúgalska leikmanninum Cristiano Ronaldo með því að semja við íranska félagið Esteghlal en komst síðan að því í læknisskoðuninni að hann væri á leið í rangt félag.
Bifouma er 32 ára gamall og verið á mála hjá félögum á borð við Espanyol, Granada, Las Palmas og West Bromwich Albion.
Hann er mikill ævintýramaður og hefur spilað í sjö löndum á ferlinum en hann hafði strax áhuga þegar hann sá að félagið Esteghlal Khuzestan vildi semja við hann.
Þannig er mál með vexti að tvö félög í Íran bera nafnið Esteghlal og hélt Bifouma að hann væri að semja við félagið sem spilar í Meistaradeild Asíu.
Liðið átti að mæta Cristiano Ronaldo og félögum í Al-Nassr og vildi hann því ólmur stökkva á það tækifæri. Þegar hann mætti í læknisskoðun hjá Esteghlal fékk hann símtal og áttaði sig á því að hann hafi samið við rangt félag.
„Af hverju ákvað ég að spila í írönsku deildinni? Ég fékk tækifæri til að spila í Tyrklandi, en eiginkona mín samþykkti ekki að flytja þangað. Ég vildi spila gegn Cristiano Ronaldo áður en skórnir færu upp í hillu. Ég hugsaði út í það að hann væri að spila í Asíu og það var tækifæri fyrir mig að koma til Íran.“
„Það var talað við mig um tilboð frá Esteghlal og ég skoðaði leikjadagskrána og sá að þeir voru að fara spila gegn Al-Nassr. Ég sannfærði sjálfan mig um að þangað vildi ég fara. Ég hafði hins vegar enga hugmynd um að það væru tvö lið í Íran sem bera nafnið Esteghlal!“
„Þegar ég mætti til Tehran hringdi samlandi minn, Gael Kakuta, í mig og spurði hvar ég væri. Ég sagði honum að ég væri á hótelinu og á leið í læknisskoðun. Hann spurði mig á hvaða hóteli ég væri því hann vildi koma og hitta mig. Klukkutíma síðar hringdi hann aftur í mig og sagði mér að ég væri að fara spila fyrir slakara Esteghlal (Khuzestan) liðið á meðan hann var í stóra liðinu. Hann sagði að liðið mitt væri í því að verjast en hans að sækja.“
„Burt séð frá því þá skipti það í raun engu máli því enduðum á að vinna leikinn gegn þeim (Esteghlal FC) þökk sé marki frá mér,“ sagði hann í lok viðtals.
Athugasemdir