banner
   fim 06. maí 2021 09:31
Elvar Geir Magnússon
Finnur Tómas lánaður til KR (Staðfest)
Finnur Tómas Pálmason.
Finnur Tómas Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR hefur staðfest þær fréttir að Finnur Tómas Pálmason muni leika með liðinu í sumar, á lánssamningi við Norrköping.

Fjallað var um að Norrköping hafi borgað KR 24 milljónir íslenskra króna fyrir Finn Tómas þegar hann var keyptur í janúar.

Þessi tvítugi varnarmaður var í leikmannahópi Norrköping í fyrstu tveimur umferðum Allsvenskan en var utan hóps í síðustu tveimur leikjum liðsins. Hann hafði byrjað einn bikarleik í vetur en einnig glímt við meiðsli.

Lánssamningurinn við KR er út þetta tímabil en KR byrjaði Pepsi Max-deildina á sigri gegn Breiðablik. Liðið tekur á móti KA annað kvöld.

Finnur fer í sóttkví við komuna til Íslands og verður því ekki með á morgun.

„Heimkoma Finns eru frábærar fréttir fyrir KR-liðið enda á hann að baki farsælan feril í meistaraflokki KR, þó stuttur sé. Hann lék með afbrigðum vel fyrir KR sumarið 2019, þá aðeins 18 ára gamall, og var þá meðal annars valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar. Þá á hann að baki 25 leiki með yngri landsliðum Íslands og lék nýverið tvo leiki fyrir U21 árs landsliðið á lokakeppni EM," segir á heimasíðu KR.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner