Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 06. júlí 2020 13:21
Magnús Már Einarsson
Kári Árna: Dómaratríóið tekur þetta í sínar hendur
Helgi Mikael Jónasson rekur Kára af velli.
Helgi Mikael Jónasson rekur Kára af velli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir Ottesen er rekinn af velli.
Sölvi Geir Ottesen er rekinn af velli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Smári rekinn af velli.
Halldór Smári rekinn af velli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta dómaratríó sem dæmir þennan leik tekur þetta í sínar hendur. Þeir eyðileggja þennan leik. Allt í lagi, það gerist, en þeir eru að setja næsta leik í hættu. Við eigum ekki endalaust af hafsentum og hann setur þrjá reyndustu leikmenn liðsins í bann," sagði Kári Árnason, varnarmaður Víkings, við Fótbolta.net í dag aðspurður út í rauðu spjöldin í leik liðsins gegn KR á laugardaginn.

Kári, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, miðverðir Víkings, fengu allir að líta rauða spjaldið í 2-0 tapinu gegn KR um helgina. Kári er allt annað en ánægður með þær ákvarðanir hjá Helga Mikael Jónassyni dómara leiksins.

„Ég er ekki vanur því að fylgjast mikið með fótboltaumræðu almennt því að hún er oft ekki á réttu plani. Maður veit ofast sjálfur betur um það sem er verið að tala um án þess að vera hrokafullur. Þegar maður er búinn að spila ákveðið marga leiki þá veit maður út á hvað málið gengur. Umræðan er ekki á nógu háu plani. Kiddi Jak er fenginn í viðtal, fyrrum formaður dómaranefndar, og þeir standa saman í þessu bulli. Eftir að Kristján Flóki viðurkennir að hann fari auðveldlega niður þá er hann samt að réttlæta rautt spjald. Hvaða skilaboð er hann að senda með þessu? Er hann að hvetja menn til að láta sig detta?" sagði Kári við Fótbolta.net í dag.

„Hann er að ýta undir leikaraskap og óheiðarleika"
Kári fékk að líta rauða spjaldið um miðbik fyrri hálfleiks eftir baráttu við Kristján Flóka Finnbogason, framherja KR. Helgi Mikael sýndi Kára rauða spjaldið þar sem hann taldi hann vera að ræna Kristján Flóka upplögðu marktækifæri. Kristján Flóki viðurkenndi eftir leik að hafa farið auðveldlega niður.

„Mér fannst við vera með KR upp við vegg og það var tímaspursmál hvenær við vorum að fara að skora þegar dómarinn tekur þetta í sínar hendur og eyðileggur leikinn á 25. mínútu. Að því sögðu þá skil ég að hann falli í þessa gildru með mig. Þetta lítur kannski út fyrir að vera eitthvað sem þetta er ekki."

„Það á sér stað brot áður þar sem hann togar í axlirnar á mér til að komast í þá stöðu sem hann er í. Mín fyrstu viðbrögð eru að stinga út hendinni til að hægja á honum en það er ekkert peysutog í gangi. Þá lætur hann sig detta með þvílíkum tilþrifum. Línuvörðurinn flaggar aldrei neitt og gerir ekki neitt. Hann hleypur einhverja 20-30 metra lengst fyrir aftan og er búinn að ákveða þetta. 'Núna ætla ég að reka Kára út af. Það er rosa statement."

„Ég hef ekki fengið rautt spjald sem hafsent á mínum ferli en ég hef fengið mörg rauð á miðjunni fyrir einhvern djöfulgang. Ég skil þetta ekki. Hann ráðfærði sig ekkert við línuvörðinn sem sá ekkert athugavert við þetta heldur ákvað hann á staðnum að fara beint í rauða spjaldið. Ráðfærðu þig við línuvörðinn og taktu smá tíma í ákvörðunina. Doddi (Þórður Ingason) er kominn með boltann í hendurnar því Kristján Flóki átti ömurlegt touch á boltann. Ég reiknaði með því að hann ætti gott touch en það var ömurlegt. Ég reyndi að staðsetja mig þannig að hann myndi ekki komast fram fyrir mig en engu að síður er hann aldrei að fara að ná þessum bolta. Markvörðurinn er kominn með boltann í hendurnar þegar hann lætur sig detta. Það sem Kiddi Jak er að segja er að hann er að hvetja menn til þess að láta sig detta ef þeir sjá að augnablikið er búið. Hann er að ýta undir leikaraskap og óheiðarleika sem ég get ekki sýnt stuðning við. Þetta er ekki í boði."


„Rauða spjaldið hjá Sölva er út í hött"
Í síðari hálfleik fékk Sölvi Geir beint rautt spjald. Eftir baráttu við hliðarlínuna ýtti Pablo Punyed í Sölva sem fór með hendina í andlitið á Stefáni Árna Geirssyni sem lá á vellinum.

„Rauða spjaldið hjá Sölva er út í hött. Það sést að honum er hrint. Svo tala menn um að hann hafi kýlt hann í andlitið. Hann rekur öxlina eða upphandlegginn í hann af því að það er hrint. Þessi hrinding í bakið á að verðskulda rautt spjald eða eitthvað. Það á að vera eitt rautt spjald í þessum leik og það er á Kennie Chopart inn í teig í horni þegar hann er kominn með olnbogann upp fyrr hausinn og gefur Nikolaj (Hansen) einn á kjaftinn. Það er búið að gefa rautt spjald á þetta hægri, vinstri í sumar eftir að Ragnar Bragi (Sveinsson) meiddist. Þetta er víti og rautt spjald og þá er þetta jafn leikur."

Halldór nær ekki boltanum ef hann hægir á sér
Þriðja rauða spjaldið kom síðan þegar Halldór Smári fór í tæklingu við Kennie Chopart en hann fékk einnig að líta beint rautt spjald.

„Tæklingin hjá Halldóri Smára. Það er verið að tala um að hann eigi að hægja á sér. Þá nær hann ekki á boltanum. Þá kemur hann of seint. Hann nær boltanum og báðar lappir eru við jörðina. Þetta er heiðarleg tækling. Hún er hörð en Kennie fer að sama skapi hart í boltann og þar af leiðandi meiðir hann sig. Hann á möguleika á að hoppa upp úr þessu. Það vill enginn meiða neinn. Það er enginn í fóbolta til að meiða einhvern en þú ferð í boltann af krafti til að meiðast ekki. Stundum meiðast menn og þetta er bara óhapp. Halldór Smári er miður sín að hafa meitt manninn en engu að síður er hann pirraður yfir því að hafa fengið rautt spjald fyrir fullkomlega löglega tæklingu," sagði Kári.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner