Í dag var opinberaður landsliðshópur Íslands fyrir vináttuleiki gegn Póllandi og Slóvakíu ytra 13. og 17. nóvember.
Fótbolti.net ræddi við Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara af því tilefni og má hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan. Hópurinn er ungur og margir leikmenn að fá tækifæri.
„Þetta eru strákar sem hafa verið á jaðrinum. Við höfum margoft rætt hvort það sé kominn tími fyrir hinn og þennan en höfum valið að vera fastheldnir á hópinn okkar. Við höfum verið mjög ánægðir með hópinn eins og hann hefur verið en nú gefst okkur tækifæri á að skoða þessa nýju leikmenn sem hafa staðið sig vel með sínum félagsliðum og U21-landsliðinu," segir Heimir.
„Okkur fannst góður tímapunktur að hvíla eldri leikmennina sem við þekkjum nákvæmlega og vitum hvað geta."
Ljóst er að það þarf að stækka teymið í kringum landsliðið fyrir lokakeppni EM. Hvernig gengur sú vinna?
„Hún gengur ágætlega. Við erum að fara á fund á morgun með yfirstjórninni hér, ræðum hvernig við plönum þetta. KSÍ hefur sett upp ákveðið skipurit um hvernig við ætlum að stjórna þessu. Við ætlum að slípa það til. Við ætlum samt ekki að fylla allt af starfsfólki. Núverandi starfsfólk er frábært en auðvitað er ekki hægt að bjóða mönnum upp á að vinna frá morgni til miðnættis í margar vikur."
Viðtalið má heyra í heild í spilaranum hér að ofan en þar ræðir Heimir meðal annars um komandi landsleiki gegn Póllandi og Slóvakíu.
Athugasemdir




