mið 07. apríl 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Nordsjælland og Right to Dream: Tækifæri að verða fyrirmynd
Nordsjælland er að gera skemmtilega hluti.
Nordsjælland er að gera skemmtilega hluti.
Mynd: Getty Images
Mohammed Kudus kom úr Right to Dream akademíunni.
Mohammed Kudus kom úr Right to Dream akademíunni.
Mynd: Ajax
Tom Vernon.
Tom Vernon.
Mynd: Getty Images
Kamaldeen Sulemana og Abu Francis.
Kamaldeen Sulemana og Abu Francis.
Mynd: Getty Images
Jón Dagur Þorsteinsson í leik með AGF gegn Nordsjælland um síðustu helgi.
Jón Dagur Þorsteinsson í leik með AGF gegn Nordsjælland um síðustu helgi.
Mynd: Getty Images
Nordsjælland er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.
Nordsjælland er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Um síðastliðna helgi setti danska félagið FC Nordsjælland nýtt met. Nordsjælland spilar mestmegnis á ungum leikmönnum og gerir það með fínum árangri.

Á sunnudag var meðalaldur liðsins einungis 20 ár og 20 dagar og er það yngsta lið sem hefur spilað leik í dönsku úrvalsdeildinni. Ekki nóg með það, þá vann liðið leikinn sem var gegn AGF frá Árósum.

Það er gríðarlega áhugavert verkefni í gangi hjá Nordsjælland. Þetta er félag sem er að gera hlutina öðruvísi.

The Right to Dream akademían
Fyrir 20 árum síðan, á ónotuðum velli í bænum Dawu í Austurhluta Gana, var Right to Dream fótboltaakademían stofnuð. Það var hugmynd enska fótboltaþjálfara- og njósnarans Tom Vernon sem starfaði meðal annars fyrir Manchester United. Hann taldi að með íþróttum og menntun gætu börn úr mikill fátækt búið sér til betra líf.

Á 20 árum tókst honum og samstarfsfélögum hans að byggja upp akademíuna og gera hana að þeirri virtustu í Gana. Þarna hafa orðið til landsliðsmenn en það eru líka stelpur í akademíunni.

Fyrir fimm árum síðan færði Right to Dream út kvíarnar, til Danmörku. Right to Dream keypti FC Nordsjælland og Vernon varð stjórnarformaður. Hann sér um samstarf á milli akademíunnar í Gana og akademíu FC Nordsjælland í Danmörku. Félagið er með hugmyndafræði um að byggja nánast alfarið á ungum leikmönnum og gefa tækifæri. Ef þú ert í U19 liði Nordsjælland, þá þarftu að vera tilbúinn að stíga upp í aðalliðið.

Í grein Sky Sports frá því fyrra segir að Nordsjælland hafi verið með yngsta liðið í Evrópu þegar tekið er tillit til efstu deilda heimsálfunnar. Síðan þá, þá hefur liðið bara yngst.

„Við erum yngsta liðið en við viljum ekki vera yngsta liðið og falla," sagði Vernon en Nordsjælland hefur verið í efri hlutanum í Danmörku og verið að berjast um Evrópusæti.

Vernon segir að það sé mikil áhersla lögð á það í akademíunum að fjárfesta ekki bara í fótboltamönnum, heldur líka í manneskjum. Það er lögð áhersla á lífskennslu ef svo má segja, ekki bara fótboltakennslu. Stefnan er að búa til góðar manneskjur og fyrirmyndir sem láta gott af sér leiða í samfélaginu.

„Þeir gefa þér tækifæri ef þú ert að standa þig vel, sama hversu gamall þú ert. Þeir þróa fótboltamenn en félagið hugsar líka um þig sem manneskju. Við vorum mikið að einbeita okkur að því að byggja upp karakter og ég naut mín mjög vel þarna," sagði Mathias Jensen, fyrrum leikmaður Nordsjælland og núverandi leikmaður Brentford á Englandi, við Sky Sports.

Nordsjælland tekur sem félag þátt í Common Goal verkefni Juan Mata, miðjumanns Manchester United, þar sem leikmenn og þjálfarar gefa eitt prósent af launum sínum til góðgerðarmála. Félagið vill láta gott af sér leiða í samfélaginu, og að leikmennirnir geri það líka.

Vilja læra af Afríku
Það er mikil einbeiting á karakter leikmanna í akademíunum. Þau sem komast inn í akademíuna fá sex ára skólastyrk frá tíu ára aldri. Mikið af nemendunum fer til Bandaríkjanna í skóla og aðrir semja við félagslið í Evrópu. Þeir bestu fara í Nordsjælland.

„Árangurinn er góður. Um 95 prósent úr hverjum árgangi enda annað hvort sem atvinnumenn eða á skólastyrk í Bandaríkjunum," segir Vernon við BBC.

Vernon segir að allir líti til Evrópu varðandi það hvernig eigi að reka unglingaakademíu en hann vill að fólk beini augum sínum til Afríku. „Það sem við viljum gera er að snúa dæminu við og koma með það besta frá menningunni í Gana."

Allir danskir leikmenn Nordsjælland fara til Gana og læra. „Reynslan í Afríku getur verið mjög mótandi; byggir upp karakter, byggir upp seiglu og svo spilarðu við bestu lið Gana. Það er mikil áskorun og við viljum að Afríka móti vöxt danskra leikmanna," segir Vernon.

Staðan
Í fyrra seldi Nordsjælland hinn tvítuga Mohammed Kudus til Ajax í Hollandi fyrir um níu milljónir evra. Ferðalag hans byrjaði í Gana hjá Right to Dream. Hann kom til Nordsjælland 2018 og sló í gegn í Danmörku.

Kudus er gott dæmi um það hvernig akademían og tengingin við Nordsjælland getur látið drauma ræst.

Í aðalliðshópnum núna eru fjórir leikmenn frá Gana og tveir leikmenn frá Fílabeinsströndinni sem koma úr Right to Dream. Það verður spennandi að fylgjast með þeirra ferlum.

Orri Rafn Sigurðarson starfar sem lýsandi á Viaplay í Danmörku og hann fylgist náið með danska boltanum. Aðspurður að því hvaða leikmenn séu hvað mest spennandi hjá Nordsjælland segir hann:

„Kamaldeen Sulemana,19 ára Ganverji, Andreas Schjelderup, 16 ára Norðmaður sem hefur komið sterkur inn í síðustu leikjum, Abu Francis, 19 ára Ganverji og Magnus Kofod Andersen, fyrirliði þeirra á miðjunni. Mohammed Diomande, 19 ára miðjumaður frá Fílabeinsströndinni líka en hann er ökklabrotinn núna."

„Nordsjælland spilar mjög skemmtilegan fótbolta. Þeir spila mjög beinskeyttan fótbolta, en geta einnig verið 'possession' lið. Þeir eru rosalega nútímanlegt lið þar sem allir leikmenn eru mjög 'fit' og með góða tækni. Geta pressað lið vel og unnið boltann. Sjáum til dæmis fyrra markið gegn AGF þar sem þeir vinna boltann á miðjum vellinum; allt AGF liðið komið framarlega, sprengja á þá og 1-0. Þeir eru í fjórða sæti yfir skot á mark að meðaltali og í þriðja sæti yfir mörk skoruð að meðaltali í leik," segir Orri og bætir við:

„Þessi formúla með Right to Dream hefur verið að virka vel. Hins vegar er erfitt fyrir ung lið að vinna titla, sérstaklega þegar þau eru að keppa við stórveldi sem hafa peninga til þess að kaupa inn stórgóða leikmenn. Ég held það sé smá tími í að þeir geti farið að horfa á efsta sætið, en liðið, og fótboltinn sem það spilar, getur klárlega endað í fjórða til sjötta sæti á ári hverju með sínum ungu guttum á eftir þessum þremur, fjórum stærstu liðum. Það er erfitt að byrja alltaf upp á nýtt þar sem þeir selja oftast sína bestu stráka eftir hvert tímabil."

Nordsjælland selur yfirleitt alltaf bestu leikmennina sína en fer ekki og eyðir háum fjárhæðum í aðra leikmenn. Í staðinn koma leikmenn upp úr unglingaliðunum og fá tækifæri til að láta drauminn rætast.

Nordsjælland er í sjötta sæti af 12 liðum dönsku úrvalsdeildarinnar, með yngsta liðið. Þetta er félag sem fer aðrar leiðir og það ber að virða.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner