mán 08. ágúst 2022 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aðstoðarþjálfari ÍBV farinn heim - „Ef ekki, þá skiljum við það"
Heimir Hallgrímsson og Hermann Hreiðarsson ræða málin.
Heimir Hallgrímsson og Hermann Hreiðarsson ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dave Bell, enskur aðstoðarþjálfari ÍBV, hefur ekki verið á skýrslu í síðustu tveimur leikjum liðsins.

Bell gerði tveggja ára samning við ÍBV síðastliðinn vetur til þess að þjálfa liðið með Hermanni Hreiðarssyni. Bell hafði til að mynda starfað fyrir Manchester United og Watford áður en hann kom hingað til lands.

Hermann var spurður út í það í gær af hverju Bell hefði ekki verið á skýrslu í síðustu tveimur leikjum. Sagði Hermann þá að Englendingurinn væri farinn heim af persónulegum ástæðum.

„Vegna persónulegra aðstæðna þá þurfti hann að fara út til Englands. Hann verður eins lengi og hann þarf að vera," sagði Hermann.

„Ef hann kemur aftur, þá bíðum við með opna arma. Ef ekki, þá skiljum við það."

Hermann segir að það sé verið að skoða það að fá nýjan mann inn. „Við ætlum að sjá hvað Dave segir," segir Hermann.

Það hefur verið talað vel um Bell í Eyjum. „Hann hefur komið mér þvílíkt á óvart. Hann er á lista með betri þjálfurum sem maður hefur verið með. Hann er tilbúinn að koma hvenær sem er fyrir leikmenn, með flottar æfingar og gefur engan afslátt," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, fyrir leiktíðina.

Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari, hefur aðstoðað ÍBV í síðustu leikjum og er það svo sannarlega ekki amalegur kostur að vera með. Það er ekki vitað sem stendur hvort ÍBV bæti við öðrum manni í þjálfarateymið.
Hemmi Hreiðars: Það er alltaf jafn ógeðslegt
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner