Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 08. október 2019 13:46
Magnús Már Einarsson
Einn sá efnilegasti í Englandi 2014 - Í liði ársins í Inkasso í ár
Vonaðist til að fara sömu leið og Rashford
Harley Willard í leik í Inkasso-deildinni í sumar.
Harley Willard í leik í Inkasso-deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willard var áður í unglingaliði Southampton.
Willard var áður í unglingaliði Southampton.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Árið 2014 birti The Guardian grein þar sem efnilegustu leikmennirnir fæddir 1997 og 1998 voru skoðaðir hjá hverju félagi í ensku úrvalsdeildinni.

Hjá Southampton varð kantmaðurinn Harley Willard fyrir valinu en hann kom til félagsins á unglingsárum eftir að hafa áður verið hjá Arsenal. Eftir að hafa spilað í U23 ára liði Southampton var Willard leystur undan samningi árið 2017 og kom það honum í opna skjöldu.

Eftir að hafa spilað með þremur liðum í ensku utandeildinni, með IFK Hässleholm í sænsku D-deildinni og Svay Rieng í úrvalsdeildinni í Kambodíu gekk Willard til liðs við Víking Ólafsvík síðastliðinn vetur.

Willard var mættur á Heathrow flugvöllinn í desember í fyrra til að fara til Kambodíu í annað tímabil. Hann ákvað á síðustu stundu að hætta við að fara í flugið og nokkrum mánuðum síðar var hann mættur til Ólafsvíkur.

„Það búa tæplega 1000 manns þar en ég kann vel við það. Þetta er góður staður til að einbeita sér að fótboltanum. Það er ekkert að trufla mann og þess vegna fór ég þangað," sagði Willard í viðtali við The Guardian.

„Það hefur verið frábært að vera hluti af þessu og ég hef notið hvers einasta leiks. Ég er ánægður og það sést á því að ég er að bæta mig innan vallar."

Árið 2013 var Willard á reynslu hjá Manchester United en þar varð hann meðal annars vinur Marcus Rashford. Á þeim tímapunkti virtust þeir vera á svipuðum stað á ferlinum.

„Það virtist vera að við myndum fara sömu leið; unglingalið, varalið og svo í aðallið. Hann greip tækifærið og horfðu á hann núna. Þegar þú ert með gleði, sjálfstraust og gott fólk í kringum þig þá liggur leiðin bara upp á við," sagði Willard.

Willard skoraði ellefu mörk í Inkasso-deildinni í sumar og var valinn í lið ársins í vali fyrirliða og þjálfara hjá Fótbolta.net. Í viðtali við Guardian útilokar Willard ekki að fara aftur til Víkings á næsta tímabili en hann hefur einnig vakið áhuga hjá félögum í Pepsi Max-deildinni, öðrum deildum á Norðurlöndunum og í hollensku B-deildinni.

„Ég fór í gegnum erfiða daga og hugsaði 'Hvað er búið að gerast?' og 'Hvernig kemst ég aftur til baka?' Þetta voru mjög erfiðir tímar. Þegar ég horfi til baka þá er ég ánægður með að hafa farið í gegnum þess vandræði því þau mótuðu mig. Að fara í gegnum erfiða tíma og vita að þetta verður ekki verra en þetta var þá. Núna er ég á uppleið, farinn að ná smá velgengni og ég veit hvað ég þarf að gera."

Smelltu hér til að lesa greinina hjá Guardian

Hér að neðan má sjá svipmyndir af Harley Willard í Inkasso-deildinni í sumar.


Athugasemdir
banner
banner
banner