Arsenal líklegt til að fá Eze - Arsenal hefur enn ekki náð samkomulagi um Gyökeres - Napoli vill Nunez
   mið 09. júlí 2025 20:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
Furðulegur fréttamannafundur fyrir leikinn gegn Íslandi
Icelandair
EM KVK 2025
Gemma Grainger, þjálfari Noregs, ræðir hér við fyrirliðann Ödu Hegerberg.
Gemma Grainger, þjálfari Noregs, ræðir hér við fyrirliðann Ödu Hegerberg.
Mynd: EPA
Norska liðið er búið að vinna riðilinn.
Norska liðið er búið að vinna riðilinn.
Mynd: EPA
Það er óhætt að segja að blaðamannafundur Noregs í Thun í dag hafi verið frekar furðulegur. Fundurinn var haldinn þar sem norska liðið mætir Íslandi á EM á morgun.

Norsku blaðamennirnir sem eru mættir hér út til Sviss létu ekki sjá sig á fundinum. Aðeins voru þar tveir fréttamenn norska ríkisútvarpsins sem voru mættir til að taka viðtal við Gemmu Grainger, þjálfara Noregs, eftir fundinn.

Einnig voru þar myndatökumaður sem sá um að streyma fundinum til norskra fréttamanna, fréttamaður frá Fótbolta.net og fréttafólk frá RÚV.

Þetta var afar fámennur fundur sem er athyglisvert í ljósi þess að Noregur hefur unnið báða leiki sína og er búið að vinna riðilinn fyrir leikinn gegn Íslandi á morgun.

En þegar Fótbolti.net sóttist eftir svörum hvers vegna norskt fjölmiðlafólk væri ekki að sýna þessum fundi áhuga, þá fengust þau svör að þjálfari norska liðsins hefði verið til viðtals síðustu daga og búið væri að fá öll svörin frá henni fyrir þennan leik. Það sama ætti við um leikmennina tvo sem hefðu verið á fundinum, þær hefðu líka verið til viðtals síðustu daga.

Því litu norskir fjölmiðlamenn í raun á þennan fund sem tilgangslausan og ákváðu að gera eitthvað annað í dag en að keyra í klukkutíma frá Neuchatel - þar sem norska liðið er staðsett - til Thun - þar sem leikurinn fer fram á morgun og blaðamannafundurinn fór fram í dag.

Fjölmiðlafundur Íslands fór fram fyrr um daginn þar sem Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, og Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður, sátu fyrir svörum. Var sá fundur talsvert fjölmennari og lengri þó íslenska liðið sé dottið úr leik á mótinu.

Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma á morgun.
Athugasemdir
banner
banner