Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   fös 09. ágúst 2024 16:05
Innkastið
„Óafsakanlegt“ að enginn kveikti á að Ragnar Bragi mætti spila
Ragnar Bragi Sveinsson.
Ragnar Bragi Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í Innkastinu var rætt um þau mistök Fylkismanna að halda að Ragnar Bragi Sveinsson ætti að taka út leikbann í 3-0 tapleiknum gegn Breiðabliki á þriðjudag.

Þeir komust að því í gegnum fjölmiðla á leikdegi að Ragnar tæki bannið út í umferðinni á eftir en ekki í þessum leik. En þar sem búið var að setja upp leikinn með það í huga að hann yrði ekki með var hann látinn byrja á bekknum.

„Þetta er besti leikmaður liðsins, þetta er mikilvægasti leikmaðurinn og fyrirliðinn," segir Elvar Geir Magnússon um Ragnar Braga, sem kom inn sem varamaður á 61. mínútu í stöðunni 2-0 fyrir Breiðabliki.

„Það er fáránlegt að það sé enginn í klúbbnum, í kringum meistaraflokkinn, sem þekkir þessar reglur. Þetta eru vissulega fáránlegar reglur en alls ekki nýjar. Þeir eiga að vita þetta um leið og það gerist. Mér finnst þetta eiginlega óafsakanlegt," segir Valur Gunnarsson og Elvar bætir við:

„Ég set stærsta mínusinn á þjálfarateymið, Rúnar Pál og Brynjar Björn, þeir eru með svo rosalega mikla reynslu. Þetta er agalegt og enn agalegra því Fylkir er í þessari stöðu. Þeir eru að bæta við bannið hans því hann verður í banni í næsta leik þó hann hafi ekki byrjað þennan leik."

Ragnar Bragi verður í banni þegar Fylkir tekur á móti KA á sunnudaginn í Bestu deildinni en Fylkir er í neðsta sæti deildarinnar.

Svona er reglan sem Fylkismenn klikkuðu á:
Ef leikmaður fer í bann vegna uppsafnaðra gulra spjalda er það tekið fyrir á fundi aganefndar á þriðjudegi og tekur gildi frá og með hádegi daginn eftir. Ragnar Bragi fékk sitt fjórða gula spjald miðvikudaginn 31. júlí en þriðjudaginn á eftir var leikurinn gegn Breiðabliki. Fyrr sama dag fundaði agnefndin en bannið tók hinsvegar ekki gildi fyrr en daginn eftir leik.
Innkastið - Brotið mark og óútreiknanlegt liðsval
Athugasemdir
banner
banner
banner