Man City komið með tilboð í Éderson - Man Utd vill selja Lindelöf og Eriksen - Chelsea með í baráttunni um Doué - Úrvalsdeildarfélög berjast um...
   mið 10. júlí 2024 20:57
Brynjar Ingi Erluson
EM: Varamennirnir komu Englendingum í úrslit - Mæta Spánverjum á sunnudag
Ollie Watkins fagnar marki sínu og Virgil van Dijk í sárum sínum
Ollie Watkins fagnar marki sínu og Virgil van Dijk í sárum sínum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Holland 1 - 2 England
1-0 Xavi Simons ('7 )
1-1 Harry Kane ('18 , víti)
1-2 Ollie Watkins ('90 )

Englendingar eru komnir í úrslit Evrópumótsins í annað skiptið í röð eftir að það vann dramatískan 2-1 sigur á Hollandi á Signal Iduna Park í Dortmund í Þýskalandi í kvöld.

Hollenska liðið gat ekki beðið um betri byrjun. Xavi Simons vann boltann af Declan Rice fyrir utan teiginn hægra megin. Hollendingurinn keyrði með boltann í átt að teignum og þrumaði honum efst upp í vinstra hornið. Fyrsta mark hans á mótinu.

Englendingar voru ekki lengi að svara fyrir sig. Tíu mínútum síðar gerði Denzel Dumfries klaufaleg mistök er hann sparkaði í Harry Kane sem var búinn að hleypa af skoti.

Felix Zwayer, dómari leiksins, var sendur í VAR-skjáinn og dæmdi í kjölfarið vítaspyrnu. Kane setti boltann alveg upp við stöng vinstra megin. Öryggið uppmálað.

Fimm mínútum síðar var Phil Foden hársbreidd frá því að koma Englendingum yfir. Hann fékk boltann inn fyrir og kom boltanum að marki. Boltinn framhjá Verbruggen en Dumfries komst í tæka tíð á línuna og kom í veg fyrir að boltinn færi inn.

Dumfries var næstum því búinn að koma Englendingum aftur í forystu eftir hálftímaleik er hann stangaði hornspyrnu í þverslá.

Það vantaði ekki færin í leikinn. Foden tók eitt af sínum klassísku skotum fyrir utan teig á 32. mínútu. Hann keyrði í átt að teignum og þrumaði honum efst í vinstra hornið, en boltinn í slá og yfir markið.

Staðan í hálfleik 1-1. Hörkuleikur þar sem bæði lið sköpuðu sér góð færi en sá síðari byrjaði heldur rólega.

Fyrsta stóra tækifærið í síðari kom ekki fyrr en á 65. mínútu er Virgil van Dijk stangaði aukaspyrnu í átt að marki en Jordan Pickford varði meistaralega í markinu.

Pickford var orðinn svolítið taugastrekktur í markinu á eftir og var í basli með nokkra auðvelda bolta en náði alltaf að bjarga sér rétt fyrir horn.

Um ellefu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma kom Bukayo Saka boltanum í netið eftir sendingu frá Kyle Walker. Markið fékk ekki að standa þar sem Walker var í rangstöðu í aðdragandanum.

Virkaði allt of auðvelt fyrir Englendinga og Walker rétt fyrir innan.

Gareth Southgate, þjálfari Englendinga, tók djarfa ákvörðun í kjölfarið er hann skipti Harry Kane og Phil Foden af velli, leikmenn sem höfðu gefið liðinu mikið í leiknum, en Ollie Watkins og Cole Palmer komu inn í stað þeirra.

Sú ákvörðun heppnaðist fullkomlega því á 90. mínútu kom Cole Palmer boltanum inn á Watkins sem var með boltann hægra megin í teignum, tók þverhlaup og skaut föstum bolta í fjærhornið alveg út við stöng. Stórkostlegt mark og hans fjórða fyrir enska landsliðið.

Þetta var sigurmark leiksins. England er komið í úrslit Evrópumótsins í annað sinn í röð. Þetta hefur ekki verið fallegt hjá Englendingum en svo sannarlega árangursríkt.

Stóra prófið er nú framundan. England er að fara mæta Spánverjum, langbesta liði mótsins til þessa, í úrslitaleik á sunnudag. Holland er úr leik.
Athugasemdir
banner
banner