Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 10. september 2019 20:48
Brynjar Ingi Erluson
Undankeppni EM: Svekkjandi tap í Albaníu
Icelandair
Íslenska liðið tapaði fyrir Albaníu í kvöld
Íslenska liðið tapaði fyrir Albaníu í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albanía 4 - 2 Ísland
1-0 Kastriot Dermaku ('32 )
1-1 Gylfi Þór Sigurðsson ('47 )
2-1 Elseid Hysaj ('52 )
2-2 Kolbeinn Sigþórsson ('58 )
3-2 Odise Roshi ('77 )
4-2 Sokol Çikalleshi ('83 )

Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrir Albaníu, 4-2, í undankeppni Evrópumótsins í kvöld en leikurinn fór fram í Elbasan í Albaníu. Þetta gerir íslenska liðinu afar erfitt fyrir í riðlinum.

Albanska liðið byrjaði af mun meiri krafti og fékk nokkur álitleg færi áður en Kastriot Dermaku kom liðinu yfir á 32. mínútu. Ledian Memushaj fékk þá boltann eftir hornspyrnu, kom honum fyrir og þar stökk Dermaku manna hæst og skallaði hann í netið.

Íslenska liðið jafnaði metin í upphafi síðari hálfleik en Rúnar Már Sigurjónsson lagði þá boltann út á Gylfa Þór Sigurðsson sem kom boltanum framhjá Thomas Strakosha og í netið.

Elseid Hysaj, fyrirliði Albaníu, skoraði fyrsta landsliðsmark sitt á 52. mínútu. Hann keyrði þá í gegnum miðjuna, lagði boltann á Rey Manaj, sem gaf skemmtilega hælsendingu aftur inn fyrir á Hysaj sem skoraði örugglega framhjá Hannesi.

Kolbeinn Sigþórsson kom inná sem varamaður á 56. mínútu leiksins fyrir Emil Hallfreðsson og innan við tveimur mínútum síðar jafnaði hann metið með marki af stuttu færi.

Albanska liðið vildi þetta þó meira og undir lok skoraði liðið tvö mörk. Odise Roshi skoraði á 77. mínútu er hann fékk boltann vinstra megin, keyrði inn í teiginn og lét vaða með hægri en boltinn fór af Kára Árnasyni og í netið. Sex mínútum síðar gulltryggði Sokol Cikalleshi sigurinn.

Memushaj var þá með boltann vinstra megin í teignum, lyfti honum inn í miðjan teiginn og þar var Cikalleshi mættur til að koma knettinum í netið. Lokatölur 4-2 fyrir Albaníu.

Ísland er í 3. sæti riðilsins með 12 stig, þremur stigum á eftir Frakklandi og Tyrklandi. Albanía er með 9 stig í fjórða sætinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner