Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa er í viðræðum við franska félagið Reims um möguleg kaup á Björn Engels. Þetta kemur fram í franska tímaritinu L'Equipe.
Engels er 24 ára gamall varnarmaður og uppalinn hjá belgíska félaginu Club Brugge en hann var keyptur til gríska stórliðsins Olympiakos árið 2017.
Hann náði ekki að festa sig í sessi þar og var lánaður til Reims í Frakklandi fyrir síðasta tímabil. Þar gerði hann fínustu hluti og spilaði þar 33 deildarleiki sem varð til þess að félagið ákvað að nýta sér kaupréttinn á honum.
Samkvæmt L'Equipe er hann þó að öllum líkindum á förum í sumar þrátt fyrir að Reims hafi nýtt sér kaupréttinn í mars.
Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa er í viðræðum við Reims um kaup á Engels en ekkert kaupverð hefur komið fram til þessa.
Engels hefur leikið fyrir öll yngri landslið Belgíu. Hann var valinn í A-landsliðið árið 2016 rétt fyrir Evrópumótið í Frakklandi en meiddist rétt fyrir mót.
Athugasemdir