Sky Sports greinir frá því að Everton ætli beint í viðræður við Carlo Ancelotti sem var rekinn úr starfi sínu hjá Napoli í gærkvöldi. Hann var rekinn eftir 4-0 sigur gegn Genk sem tryggði Napoli upp úr E-riðli Meistaradeildarinnar.
Ancelotti var rekinn vegna slæms gengis í Serie A þar sem Napoli er aðeins í sjöunda sæti, með 21 stig eftir 15 umferðir.
Greint er frá því að Everton gæti ráðið David Moyes sem bráðabirgðastjóra þar til samningar nást við Ancelotti. Duncan Ferguson er bráðabirgðastjóri félagsins sem stendur og stýrði liðinu til sigurs gegn Chelsea um síðustu helgi.
Everton er þó ekki eina félagið sem hefur áhuga á Ancelotti. Arsenal hefur verið nefnt til sögunnar eftir að Unai Emery var rekinn í lok nóvember.
Gennaro Gattuso er talinn líklegasti arftaki Ancelotti hjá Napoli. Búist er við að hann taki við stjórnartaumunum strax á morgun.
Ancelotti er 60 ára gamall og hefur unnið Meistaradeild Evrópu þrisvar á stjóraferlinum. Auk þess hefur hann unnið efstu deild á Ítalíu, Englandi, Frakklandi og Þýskalandi en honum tókst ekki að vinna La Liga við stjórnvölinn hjá Real Madrid.
Athugasemdir