Carrick gæti stýrt æfingu Man Utd á miðvikudag - Everton vill White frá Arsenal - Dortmund fylgist með Bobb
   mán 12. janúar 2026 19:00
Kári Snorrason
Formaður ÍBV: Ekki einn einasti þjálfari sem við ræddum við velti sér upp úr þessu
Alex Freyr Hilmarsson er bæði fyrirliði og framkvæmdastjóri ÍBV.
Alex Freyr Hilmarsson er bæði fyrirliði og framkvæmdastjóri ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorlákur Árnason sagði upp störfum vegna ráðningarinnar á Alex.
Þorlákur Árnason sagði upp störfum vegna ráðningarinnar á Alex.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Starf snýr ekki að neinu sem kemur að þjálfara eða leikmönnum liðsins. Hann getur ekki komið að því og það var eitthvað sem allir vissu þegar hann var ráðinn.“
„Starf snýr ekki að neinu sem kemur að þjálfara eða leikmönnum liðsins. Hann getur ekki komið að því og það var eitthvað sem allir vissu þegar hann var ráðinn.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti mikla athygli fyrr í vetur er Þorlákur Árnason sagði upp störfum hjá ÍBV. Hann sagði ástæðuna fyrir uppsögn sinni vera ráðningu á Alex Frey Hilmarssyni, fyrirliða liðsins, sem nýjum framkvæmdastjóra fótboltadeildar ÍBV.

„Þetta var eitthvað sem ég sá bara ekki ganga upp með mig sem þjálfara," sagði Láki meðal annars í samtali við Fótbolta.net eftir að hann sagði upp störfum.

Fótbolti.net ræddi við Magnús Sigurðsson, formann fótboltadeildar hjá ÍBV, og ræddi við hann um hvernig málum Alex er háttað sem bæði leikmaður liðsins og framkvæmdastjóri.

Tekur ekki ákvarðanir sem snúa að liðinu
„Hann er í rauninni starfsmaður ÍBV sem kemur að rekstri félagsins og það er stærsti þátturinn í hans starfi,“ segir Magnús.

Alex kom hvorki að ráðningu nýs þjálfara hjá ÍBV né að leikmannamálum félagsins: „Hann sér um verkefni fyrir báða meistaraflokkana. En hann tekur ekki ákvarðanir sem snúa að liðinu sem leikmaður. Ég held að allir hafi getað áttað sig á því.“

Nýráðinn þjálfari ÍBV, Aleksandar Linta hafði þá engar áhyggjur af þessu? „Það var ekki einn einasti þjálfari sem við ræddum við sem velti sér upp úr þessu eða hafði áhyggjur.“

Hafði áhuga svo lengi sem að allir væru samþykkir
Hvernig kom þessi hugmynd upp?

„Alex var á ákveðnum krossgötum með sína vinnu. Síðan kom þessi hugmynd upp og við ræddum hana. Alex hafði áhuga á þessu, svo framarlega sem allir sem komu að liðinu væru samþykkir því.“

Áttuð þið ykkur á því að þetta gæti verið eldfim ráðning?

„Auðvitað veltu menn þessu upp að starfið yrði að vera rammað inn vegna þess að hann er leikmaður. Það var það sem var ákveðið þegar hann var ráðinn.

En hans starf snýr ekki að neinu sem kemur að þjálfara eða leikmönnum liðsins. Hann getur ekki komið að því og það var eitthvað sem allir vissu þegar hann var ráðinn. Hann ræddi það sjálfur í ráðningarferlinu. Þau mál falla á herðar stjórnarinnar.“


Magnús segir bera virðingu fyrir ákvörðun Láka: „Það var búið að ganga frá því að Láki yrði áfram. Honum snerist hugur og við berum virðingu fyrir því. Við óskum honum alls hins besta,“ sagði formaðurinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner