Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   fös 12. apríl 2024 16:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir riftunina hjá Nadíu tengjast fyrirliðabandinu
Nadía Atladóttir.
Nadía Atladóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Víkingur varð Reykjavíkurmeistari í vetur.
Víkingur varð Reykjavíkurmeistari í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Nadía var fyrirliði Víkings í fyrra og skoraði tvennu í bikarúrslitaleiknum.
Nadía var fyrirliði Víkings í fyrra og skoraði tvennu í bikarúrslitaleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur vakið mikla athygli að Nadía Atladóttir hafi yfirgefið Víkinga núna þegar stutt er í mót. Út á við var hún andlit liðsins sem vann Lengjudeildina í fyrra og gerði sér lítið fyrir og vann Mjólkurbikarinn í leiðinni. Eitt af liðum ársins 2023.

Nadía rifti samningi sínum við Víking fyrir viku síðan en það kom nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það voru tíðindi sem komu mjög á óvart en hún samdi í kjölfarið við Val.

Fólk hefur auðvitað velt því fyrir sér af hverju Nadía rifti samningi sínum en hún hefur sjálf ekki viljað tjá sig beint um viðskilnaðinn. „Ég hef nú bara verið að segja 'no comment' við flesta. Ég er samt stolt af því að spila fyrir Víking og mér fannst það algjör heiður. Í fyrra urðum við bikarmeistarar og komumst upp. Ég hef alltaf litið á Víking sem uppeldisfélag, þannig mér fannst það frábært. Ég hef ekkert vont að segja um Víking, horfi til hlýju til baka á tímann þar," sagði Nadía í sjónvarpsþætti 433.is.

Hún sagði að það hefði verið aðdragandi að riftuninni. „Það var eiginlega ekki aftur snúið, fannst mér. Svo ég þurfti bara að taka þessa ákvörðun."

John Andrews, þjálfari Víkings, sagði þá við Vísi að það væri engin frétt í þessu. „Við áttum fund og hún ákvað að hún vildi fara. Af virðingu við hana og hennar framlag til félagsins ákváðum við að setja ekki verðmiða á hana," sagði John.

Fyrirliðabandið tekið
Það var rætt um þessar óvæntu fréttir í Innkastinu á dögunum. Sú saga hefur flogið hátt að málið tengist því aðallega að fyrirliðabandið hafi verið tekið af henni.

„Ég heyrði að hún væri fyrirliði og hún hefði verið eitthvað á bekknum," sagði Valur Gunnarsson.

„Ég held að þetta sé ósætti í báðar áttir. Ég held að hún hafi ekki verið að fylgja því alveg sem þjálfarinn vildi að hún væri að gera. Hægt og rólega var hún sett á bekkinn og svo var víst bandið tekið af henni. Þetta er sagan sem maður er að heyra," sagði Sæbjörn Þór Steinke.

Selma Dögg Björgvinsdóttir er nýr fyrirliði Víkings og mun leiða liðið út í Bestu deildinni.

Stjarna að mæta
Nadía var kynnt með látum á Hlíðarenda en stuðningsmenn tóku vel á móti henni í hálfleik á leik Vals og ÍA síðasta sunnudag.

„Það var eins og Margrét Lára eða Sara Björk væri mætt. Alvöru stjarna, þetta var töff móment. Núna vita allir að Nadía er í Val og voru þarna þegar hún kom inn fyrst. Þetta er töff en það vita reyndar allir hver hún er miðað við lesturinn á fréttum tengdum henni," sagði Sæbjörn.

„Öflug fjölskylda sem Valur er að fá þarna. Prettyboitjokko var að skemmta í Valstreyjunni," sagði Elvar Geir Magnússon en Patrik, betur þekktur sem Prettyboitjokko, er bróðir Nadíu.

Hægt er að hlusta á Innkastið í heild sinni hér fyrir neðan.
Innkastið - Fljúgandi start og fullar stúkur
Athugasemdir
banner
banner
banner