Fram tapaði fjórða leik sínum á tímabilinu þegar liðið tapaði gegn Stjörnunni í 6. umferð Bestu deildarinnar í kvöld. Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson, þjálfara, Fram eftir leikinn.
„Við eigum að fá 100% viti í upphafi seinni hálfleiks. Mér finnst við vera yfir á mjög mörgum sviðum, við eigum mikið af fyrirgjöfum og tækifærum á að búa til færi, mér fannst við klaufar að gera ekki betur úr þeim sóknarfærum sem buðust," sagði Rúnar.
Liðið hefur tapað öllum útileikjum sínum á tímabilinu til þessa.
„Já, vissulega er það áhyggjuefni. Við erum ósáttir að hafa ekki náð í stig á útivelli en við þurfum að halda áfram og horfa fram á vegin og bæta okkur," sagði Rúnar.
Vuk Oskar Dimitrijevic féll í teignum eftir baráttu við Guðmund Baldvin Nökkvason í upphafi seinni hálfleiks. Rúnar vildi sjá dæmda vítaspyrnu.
„Fyrsta lagi sér maður þetta ekki vel á bekknum. Eftir að hafa séð þetta á myndbandi eftir leik þá er þetta klár vítaspyrna. Dómarinn metur þetta öðruvísi og dæmir ekki, það er miður því hann er bara tíu til tólf metrum frá þessu og á að sjá þetta betur en ég. Þetta er eitt af þeim atvikum sem gerast, dómararnir sjá ekki alla hluti," sagði Rúnar.
Athugasemdir