

Neðst í fréttinni má sjá myndasyrpu af atvikinu umtalaða. Markið fékk að standa en Fjölnismenn vildu aukaspyrnu.
„Ég er klárlega svekktur eftir að við erum komnir 2-1 yfir. Við byrjum leikinn mjög vel og skorum eftir 40 sekúndur og mér fannst við vera ofaná í fyrri hálfleik. Þeir fá smá hjálp við jöfnunarmarkið sem var 100% brot og fúlt að það gerist því það fer aðeins í hausinn á okkur og þeir í kjölfarið komast yfir. “ Sagði Gunnar Már Guðmundsson þjálfari Fjölnis um leikinn eftir 3-3 jafntefli hans manna gegn Grindavík í dag þar sem jöfnunarmark Fjölnis kom á lokaandartökum leiksins.
Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 3 Fjölnir
Vendipunktur leiksins var þó jöfnunarmark Grindavíkur í 2-2. Eftir langt innkast inn á teiginn berst boltinn inn á markteig þar sem Haukur Óli Jónsson markvörður Fjölnis missir boltann í baráttu við Adam Árna Róbertsson framherja Grindavíkur. Fjölnismenn voru vægast sagt ósáttir og fór Gunnar nánar yfir atvikið.
„Mér sýndist strax í upphafi að sóknarmaðurinn keyri beint inn í markmanninn. Nú erum við búnir að skoða þetta á myndbandi og það er bara staðreyndin. Hann keyrir beint inn í markmanninn og ég skil ekki hvernig dómarinn sem er vel staðsettur sjái ekki. Í öllum leikjum er þetta brot og það var ekkert verið að vernda markmanninn okkar í þessum leik.“
Dagurinn á Stakkavíkurvelli var tilfinningaríkur í meira lagi fyrir marga. Fjölnisliðið er það fyrsta sem heimsækir bæinn til keppni frá því að rýming bæjarins átti sér stað fyrir 18 mánuðum. Hvernig var fyrir Gunnar og liðið að koma til Grindavíkur eftir það sem á hefur gengið í bænum?
„Það var engin að spá í einhverja hættur eða eitthvað svoleiðis. Það var gaman að taka þátt í þessum leik þegar svona mikið af fólki er komið í bæinn. Ég viðurkenni það að það var skrýtið að keyra í gegnum hraunið á leiðinni hingað inn og það er breyting. En það var engin að spá í neinu öðru. Það var bara gaman að taka þátt í svona leik fyrir bæjarfélag eins og Grindavík.“
Sagði Gunnar en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir