Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 12. júní 2021 22:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Danir fengu tvo möguleika - Kjær reyndi sitt besta
Hjulmand á vellinum í dag.
Hjulmand á vellinum í dag.
Mynd: EPA
Kasper Hjulmand, þjálfari Danmerkur, segir að danska liðið hafi fengið tvo möguleika eftir að leikurinn við Finnland á Evrópumótinu í dag var stöðvaður.

Danir urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Christian Eriksen, leikmaður liðsins, hneig niður. Hann þurfti læknisaðstoð og var fluttur af vellinum og á sjúkrahús þar sem líðan hans er stöðug sem betur fer.

Hjulmand segir að Danir hafi fengið tvo möguleika í tengslum við leikinn í dag.

„Við fengum tvo möguleika; að klára leikinn í kvöld eða spila í hádeginu á morgun. Leikmennirnir gátu ekki hugsað sér að fara heim á hótel, ekki sofa dúr í nótt og spila svo leikinn á morgun. Þetta snerist bara um að klára þetta," sagði Hjulmand tilfinningaríkur í viðtali eftir leik.

Finnar enduðu á því að vinna leikinn 1-0 en Hjulmand segir að það hafi verið leikmenn í hópnum sem hafi verið búnir á því andlega eftir atburði dagsins.

Simon Kjær, fyrirliði Danmerkur, átti stóran þátt í því að bjarga lífi Eriksen en hann gat ekki klárað leikinn. Hann og Eriksen eru nánir vinir.

„Þetta hafði mikil áhrif á Simon og hann var ekki viss um það hvort hann gæti haldið áfram. Hann gerði sitt besta, en gat ekki haldið áfram," sagði Hjulmand.

Leikmenn danska liðsins munu á næstu dögum fá áfallahjálp. Næsti leikur Danmerkur á mótinu er gegn Belgíu á fimmtudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner