Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   lau 12. júní 2021 18:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Fyrsti sigur Stjörnunnar og Nikolaj aftur hetjan
Fyrsti sigur Stjörnunnar í sumar staðreynd.
Fyrsti sigur Stjörnunnar í sumar staðreynd.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar eru taplausir á toppnum.
Víkingar eru taplausir á toppnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan var að enda við það að vinna sinn fyrsta leik í sumar. Stjarnan hefur verið í miklum vandræðum í sumar en þeim tókst að leggja Val - af öllum liðum - að velli.

Fyrir leikinn var Valur á toppi deildarinnar en þeir hafa ekki verið mjög sannfærandi í upphafi móts.

Varnarmaðurinn Rasmus Christiansen kom Valsmönnum yfir og var staðan 1-0 í hálfleik. Valsmenn voru með verðskuldaða forystu í hálfleik.

Allt breyttist á svipstundu í seinni hálfleik. Hilmar Árni Halldórsson jafnaði á upphafssekúndum seinni hálfleiks og fjórum mínútum síðar kom Heiðar Ægisson Stjörnunni yfir.

„Vinnur boltann af Kaj á vinstri vængnum, kemur með sendingu sem mér fannst vera of innarlega en Heiðar Ægisson mætti af hægri kantinum og pikkaði boltanum í netið!" skrifaði Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke í beinni textalýsingu.

Frábær byrjun á seinni hálfleiknum skilaði Stjörnunni sigri; þeirra fyrsti sigur á tímabilinu og fyrsta tap Vals.

Víkingur á toppinn
Víkingur Reykjavík hefur átt frábært tímabil hingað til og þeir eru komnir á topp deildarinnar eftir sigur gegn FH á heimavelli í dag.

Nikolaj Hansen var hetjan gegn Val í síðustu umferð þegar hann jafnaði í blálokin og hann var aftur hetjan í dag þegar Víkingur vann 2-0 sigur.

FH byrjaði ágætlega en Víkingar náðu fljótt vopnum sínum og leiddu þeir 1-0 í hálfleik eftir mark Nikolaj á 28. mínútu. Markið kom eftir frábæran undirbúning frá Pablo Punyed og Halldóri J.S. Þórðarsyni.

„FH-ingar hafa svo rosalega lítið náð að skapa sér að það er í raun vandræðalegt," skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu stutt áður en Nikolaj skoraði sitt annað mark á 85. mínútu. Nikolaj er núna orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar.

Víkingur er eina taplausa lið deildarinnar eftir átta leiki með 18 stig. Þeir eru með einu stigi meira en Valur. FH er í sjötta sæti með tíu stig.

Víkingur R. 2 - 0 FH
1-0 Nikolaj Andreas Hansen ('28 )
2-0 Nikolaj Andreas Hansen ('85 )
Lestu nánar um leikinn

Stjarnan 2 - 1 Valur
0-1 Rasmus Steenberg Christiansen ('27 )
1-1 Hilmar Árni Halldórsson ('47 )
2-1 Heiðar Ægisson ('51 )
Lestu nánar um leikinn

Önnur úrslit í dag:
Pepsi Max-deildin: Breiðablik afgreiddi Fylki snemma í seinni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner