fös 12. ágúst 2022 16:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Ísak búinn að heyra í Rosenborg og Viking - Langar að klára báða titlana
Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks.
Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak er búinn að gera tólf mörk í Bestu deildinni í sumar.
Ísak er búinn að gera tólf mörk í Bestu deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég sagði það fyrr í sumar að mig langaði að klára báða titlana og ég stend enn við það'
'Ég sagði það fyrr í sumar að mig langaði að klára báða titlana og ég stend enn við það'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak er gríðarlega mikilvægur í liði Blika.
Ísak er gríðarlega mikilvægur í liði Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson hefur verið algjörlega magnaður í Bestu deildinni í sumar.

Sjá einnig:
Hvernig Ísak Snær varð óvænt langbestur í deildinni

Hann hefur vakið áhuga erlendra félaga með frammistöðu sinni. Í samtali við Fótbolta.net segist Ísak ánægður sama hvað gerist, en hugur hans er að klára tímabilið með Blikum.

„Ég er ánægður sama hvað gerist. Mig langar alveg að fara út en ég er mjög sáttur hjá Blikum. Mér líður vel hérna og það er mjög fínt að vera hér ef það verður svoleiðis. Ég er búinn að vera mikið á flakki og ég verð mjög ánægður ef ég klára tímabilið. Það var markmiðið frá byrjun, að klára tímabilið. Ég sagði það frá byrjun," segir Ísak sem getur enn farið erlendis þar sem glugginn er víðast hvar enn opinn í Evrópu.

„Ég sagði það fyrr í sumar að mig langaði að klára báða titlana og ég stend enn við það."

Hann hefur verið orðaður við Rosenborg og Viking, félög sem eru í norsku úrvalsdeildinni. Hann segist hafa heyrt í þeim félögum.

„Ég er búinn að heyra frá þeim og í þeim, en ég ætla að einbeita mér að Blikum. Ég leyfi umboðsmanni mínum og stjórn Blika að sjá um þetta."

Skemmtilegra að gefa stoðsendingar
Ísak er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar með tólf mörk. Hann þarf sjö mörk til viðbótar til þess að jafna markametið í efstu deild.

„Maður hugsar alltaf aðeins um markametið, en ég er bara ánægður svo lengi sem ég get hjálpað liðinu. Mér finnst eiginlega skemmtilegra að gefa stoðsendingar að skora mörk. Það er alltaf sætt að skora, en svo lengi sem ég hjálpa liðinu og við vinnum leiki þá er ég sáttur," segir Ísak.

Hann er í allt öðruvísi hlutverki hjá Breiðabliki en hann var hjá ÍA í fyrra, hann er framar á vellinum.

„Það tók smá tíma að aðlagast nýju hlutverki. Aðallega pressunni, varnarhlutverkinu. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Ég hef ekki spilað þessa stöðu oft áður - ég gerði það einstaka sinnum hjá Norwich þegar ég þurfti að leysa aðra af. Mér finnst þetta mjög skemmtileg staða og mér líður vel í henni."

„Ég held að ég líti alltaf á sig sem miðjumann, en eins og staðan er núna er ég framherji," segir Ísak.

Núna er leiðin bara aftur upp
Eftir að hafa verið magnaðir framan af sumri þá hafa Blikar tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum, þar á meðal 5-2 gegn nágrönnum sínum í Stjörnunni. Talað hefur verið um að það sé þreyta í hópnum.

„Ég finn ekki að það sé þreyta í hópnum. Við erum að spila mikið á stuttum tíma, og þá kemur örugglega einhver þreyta. En við erum í góðu formi, við undirbjuggum okkur vel því við vissum að það yrði mikið álag. Ég held að leikmenn sé undirbúnir fyrir þetta. Núna er leiðin bara aftur upp," segir Ísak.

Það eru áhugaverðir leikir framundan þar sem Blikar mæta Víkingi í toppbaráttuslag á mánudag og HK í Kópavogsslag í Mjólkurbikarnum á föstudag.

„Þetta er spennandi verkefni, þetta er risaleikur á móti Víkingi. Það er spurning hvort við komumst lengra frá þeim eða þeir nær okkur. Svo er bikarleikur á móti HK, Kópavogsslagur og það verða læti held ég. Ég vona það allavega," segir Ísak sem er að glíma við stundina. Hann vonast til að vera með í þessum leikjum en það er óvíst eftir að hann fékk höfuðhögg.

Sjá einnig:
Ísak Snær tvisvar fengið heilahristing á þremur vikum
„Menn geta aldrei leyft sér að segja að þeir vilji ekki selja"
Athugasemdir
banner
banner