Man Utd í baráttuna um Wharton - Vilja ekki Tuchel í stað Amorim - Haaland til Real Madrid?
   sun 12. október 2025 18:41
Ívan Guðjón Baldursson
Sandra María með sigurmark annan leikinn í röð
Kvenaboltinn
Mynd: Köln
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðustu leikjum dagsins er lokið í evrópska kvennaboltanum þar sem Sandra María Jessen tryggði FC Köln sigur annan leikinn í röð í efstu deild þýska boltans.

Sandra skoraði tvennu í síðustu umferð til að tryggja sigur gegn Essen og í dag skoraði hún sigurmarkið gegn Union Berlin.

Köln hafði tapað fyrstu þremur leikjum deildartímabilsins en er núna með 6 stig eftir 5 umferðir.

Í hollenska boltanum kom Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir inn af bekknum í sigri PEC Zwolle gegn Den Haag. Zwolle er með 9 stig eftir 5 umferðir, fjórum stigum á eftir toppliðum Twente og Ajax.

Ragnheiður lék síðasta hálftíma leiksins en hún er aðeins sautján ára gömul.

Á Englandi var Hlín Eiríksdóttir ónotaður varamaður í markalausu jafntefli hjá Leicester á útivelli gegn Aston Villa. Leicester er með 5 stig eftir 6 fyrstu umferðirnar á nýju tímabili.

Í Skotlandi var Telma Ívarsdóttir á sínum stað á varamannabekk Rangers, sem tapaði 3-2 gegn Hibernian og situr í 5. sæti deildarinnar eftir tvo tapleiki í röð. Rangers er þar með 16 stig eftir 8 umferðir. Telma er varamarkvörður skoska stórveldisins.

Að lokum var Kristófer Jónsson á sínum stað í byrjunarliði Triestina sem tapaði gegn Cittadella og er í miklu veseni í C-deild ítalska boltans. Liðið er búið að safna 12 stigum í 9 deildarleikjum en er þrátt fyrir það í neðsta sæti deildarinnar með -8 stig.

Triestina byrjaði með -20 stig og verður ansi þung þraut að forðast fall niður í Serie D. Markús Páll Ellertsson, yngri bróðir Mikaels Egils, var ónotaður varamaður.

Köln 2 - 1 Union Berlin
0-1 S. Weidauer ('7)
1-1 L. Vogt ('28)
2-1 Sandra María Jessen ('34)
2-1 A. Stolze, misnotað víti ('45+4)

PEC Zwolle 2 - 1 Den Haag

Aston Villa 0 - 0 Leicester

Hibernian 3 - 2 Rangers

Cittadella 1 - 0 Triestina

Athugasemdir
banner