Enski bakvörðurinn Max Aarons er með þann draum að fara með enska landsliðinu á HM á næsta ári þó svo byrjun hans með Rangers hafi ekki verið upp á marga fiska.
Aarons er uppalinn hjá Norwich og talinn eitt mesta efni Englands fyrir ekki svo mörgum árum síðan.
Bournemouth keypti hann árið 2023, en ekki enn tekist að festa sæti sitt og verið lánaður í tvígang.
Hann var lánaður til Rangers í sumar, en liðið hefur aðeins unnið einn deildarleik í fyrstu sjö leikjunum og þá sá hann rautt í 6-0 tapi gegn Club Brugge í forkeppni Meistaradeildarinnar. Hann á sér samt enn þann draum að spila með enska landsliðinu.
„Ég mun alltaf halda í þann draum. Sú tilfinning mun aldrei hverfa og það var stór hluti af því að ég ákvað að ganga í raðir Rangers. Ég trúi því að ég geti haft mikil áhrif með því að leggja hart að mér og vonandi leiðir það að því að fólk muni fylgjast með með mér. Ég væri í skýjunum með það ef einhver hjá enska landsliðinu kemur, en þegar allt kemur til alls þá færðu aldrei kallið ef þú ert ekki að spila og það er nákvæmlega það sem ég er að einbeita mér að í augnablikinu. Ég tek eitt skref í einu og svo er ég með þetta í huga. Ég ætla að gera allt sem ég get til þess að komast þangað og skara fram úr,“ sagði Aarons við 442.
Aarons, sem er 25 ára, skoraði einmitt sigurmark Rangers í eina sigurleik liðsins í deildinni, en aðeins spilað 17 mínútur í síðustu fjórum leikjum.
Athugasemdir