
„Maður heldur alltaf að maður hefur séð allt í þessum bransa. Þetta var bara skrítinn leikur, mér fannst við frábærir í þessum leik á móti mjög sterkri þjóð. Þetta er engin Mikka mús þjóð sem við erum að spila við. Mér leið bara eins og þeir hefðu skorað úr hverju einasta færi sem þeir fengu, og færin voru ekki einu sinni það góð, þau voru skot fyrir utan teig, og gæða skot.“
Sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson á blaðamannafundi eftir 3-5 tap gegn Úkraínu. Hann segir frammistöðu liðsins góða en segir ekki boðlegt að fá á sig fimm mörk á heimavelli.
Lestu um leikinn: Ísland 3 - 5 Úkraína
„Þetta var bara ‘freak’ leikur ef ég á að segja alveg eins og er, ef þú horfir á tölfræðina og upplifun mín, og ég held flestra sem horfðu á leikinn var að við vorum sterkir í leiknum. Virkilega sterkir í uppspili og á boltann, en þetta voru ódýr mörk, við getum orðað það þannig. Mér líður illa með að vera kenna einum og einum um hér eftir leik og það er erftitt að kyngja því að labba af þessum velli og vera búinn að fá á sig fimm mörk og tapa þessum leik, því frammistaðan var virkilega góð.“
Allir ömurlegir þegar liðið tapar
„Ég veit að þjóðin vill fá smá blóð, af því það eru allir ömurlegir þegar menn tapa, en þetta var bara alls ekki þannig leikur. Og ef einhver trúir mér ekki, þá er þeim velkomið að kíkja á alla tölfræði. Þetta var ‘freak’ leikur, ég efast um að XG (væntanleg mörk) tölfræði Úkraínu hafi verið yfir einn. Þannig þið sjáið bara, öndum aðeins með nefinu fyrsta tilfinning er að þetta hafið verið frábær leikur hjá okkur, en auðvitað geri ég mér grein fyrir því að fá á sig fimm mörk á heimavelli er ekki boðlegt.“
Arnar vonast til að menn læri af þessum leik.
Ég ætla að vona að leikmenn læri mikið af þessu, og við töluðum um það í hálfleik að þetta væri mikil áraun. Það voru engin öskur eða læti í hálfleik, bara að samþykkja þessa áskorun sem var að vera 3-1 undir, og að hafa spilað nokkuð góðan fyrri hálfleik. Þú ert bara stanslaust að læra í þessum leik, málið er bara það er svo lítið af leikjum í þessum landsliðsverkefnum, ég er alltaf að segja eftir hvern einasta leik að menn eru að læra.“