
Franski miðvörðurinn Ibrahima Konate verður ekki með franska landsliðinu gegn Íslandi er liðin eigast við í undankeppni HM á Laugardalsvelli á mánudag. Þetta segir L'Equipe í dag.
Konate mætti í landsliðsverkefni með meiðsli í lærisvöðva og var allan tímann á bekknum er Frakkar unnu 3-0 sigur á Aserbaídsjan í gær.
L'Equipe segir það nú ljóst að Konate verði ekki með gegn Íslandi á mánudag.
Hann er farinn aftur til Liverpool þar sem hugað verður að meiðslum hans, en þetta er annar leikmaður Frakka sem meiðist í verkefninu á eftir fyrirliðanum Kylian Mbappe. Benjamin Pavard kemur inn í hópinn í stað Konate.
Stuðningsmenn Liverpool halda í vonina um að meiðsli Konate séu ekki alvarleg en liðið er orðið heldur þunnskipað í vörninni eftir að Giovanni Leoni sleit krossband. Eini alvöru kosturinn á bekknum er Joe Gomez, en annars gæti Arne Slot þurft að nota þá Wataru Endo eða Ryan Gravenberch til að leysa af í hjarta varnarinnar.
Frakkar eru í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en Ísland í 3. sæti með 3 stig.
Athugasemdir