Spænski miðjumaðurinn Dani Olmo meiddist á æfingu með spænska landsliðinu í landsleikjahlénu og er farinn aftur heim til Barcelona.
Olmo er mikilvægur partur af byrjunarliði Barcelona undir stjórn Hansi Flick en Luis de la Fuente landsliðsþjálfari sagði að leikmaðurinn hafi mætt þreyttur í landsliðsverkefnið.
„Olmo kom hingað þreyttur og æfði ekkert alla vikuna. Hann var að glíma við einhver óþægindi og æfði í fyrsta sinn á föstudaginn en þurfti að hætta," sagði þjálfarinn á fréttamannafundi.
Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni lenti Olmo í vöðvameiðslum og er búist við að hann verði frá í um þrjár til fjórar vikur vegna þeirra. Það þýðir að hann missir líklegast af El Clásico slagnum gegn Real Madrid 26. október.
Athugasemdir