Man Utd í baráttuna um Wharton - Vilja ekki Tuchel í stað Amorim - Haaland til Real Madrid?
   sun 12. október 2025 11:06
Brynjar Ingi Erluson
Klopp: Umræðan um Wirtz er svolítið ýkt
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Jürgen Klopp, fyrrum stjóri Liverpool, segir að stuðningsmenn félagsins þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af þýska leikmanninum Florian Wirtz og að hann muni sýna sínar bestu hliðar á næstunni.

Liverpool setti félagaskiptamet þegar það fékk Wirtz frá Bayer Leverkusen fyrir 116 milljónir punda í sumar áður en það sló það rúmum mánuði síðan með kaupunum á Alexander Isak.

Wirtz, sem er einn hæfileikaríkasti leikmaður Þjóðverja, hefur ekki alveg fundið taktinn hjá Liverpool og ekki enn komið að marki í keppnisleik.

Sumir leikmenn eru lengur að aðlagast en aðrir og er Klopp sannfærður um að stuðningsmenn munu fá að sjá að Wirtz var peninganna virði.

„Ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af Florian Wirtz því gæði hans eru svo mikil og stórkostleg. Auðvitað er allt í himnalagi og allir vita það. Umræðan hefur svo sannarlega verið svolítið ýkt,“ sagði Klopp við RTL.

„Liverpool hefur tapað þremur leikjum í röð og það er mjög óvenjulegt að eitthvað svona gerist en það er líka mjög eðlilegt í þessu lífi. Þess vegna er verið að ræða þessa hluti. Ég hef verið hluti af þessari umræðu í svo langan tíma og get sagt þér að ekkert vekur jafn lítinn áhuga hjá félaginu og þessar umræður sem eru að eiga sér stað utan félagsins. Þannig þetta skiptir engu máli og allt verður í lagi.“

„Wirtz er með hæfileika sem þú sérð einu sinni á hundrað ára fresti og á einhverjum tímapunkti mun hann byrja að sýna það í hverjum einasta leik, eins og hann gerði hjá Leverkusen. Hann er í stöðugu umhverfi og félagið er frábært á augnablikum sem þessum. Ef einhver hefur áhyggjur þá get ég fullvissað ykkur um að það er óþarfi. Þið getið hætt því!“ sagði Klopp.
Athugasemdir
banner