Spánarmeistarar Barcelona ætla ekki að framlengja samning pólska framherjans Robert Lewandowski. Þetta segir spænski miðillinn Sport í dag.
Samningur Lewandowski rennur út eftir þessa leiktíð og er Barcelona að hallast að því að leyfa honum að fara á frjálsri sölu.
Lewandowski, sem er 37 ára gamall, hefur skorað 105 mörk í 156 leikjum í öllum keppnum með Barcelona, en frammistaðan er ekki stærsta ástæðan fyrir því að framherjinn gæti þurft að kveðja heldur er það launaþak deildarinnar og rökréttar ákvarðanir í kringum reksturinn.
Launaþak Börsunga mun lækka fyrir næstu leiktíð og mun það því reynast félaginu erfiðara að framlengja samninga lykilmanna.
Barcelona horfir einnig í aldur Lewandowski en félagið hefur efasemdir um að hann geti haldið áfram að skila góðri frammistöðu og pressað af sömu ákefð og liðsfélagarnir. Það væri því ekki hagstætt að framlengja samning hans á þessum tímapunkti.
„Við ætlum ekki að tala um nýja samninga í október. Við tökum eitt skref í einu. Hann er einn besti framherji síðustu ára, alger toppleikmaður og hefur hjálpað okkur mikið. Hann hefur skorað meira en 40 mörk, en við munum greina þetta betur í framtíðinni,“ sagði Deco, yfirmaður íþróttamála hjá Barcelona, er hann var spurður út í framtíð Lewandowski á dögunum.
Athugasemdir