Man Utd í baráttuna um Wharton - Vilja ekki Tuchel í stað Amorim - Haaland til Real Madrid?
   sun 12. október 2025 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Heimir: Ættum að vera stoltir
Mynd: EPA
Írland heimsótti Portúgal í undankeppni HM í gærkvöldi og tapaði 1-0 eftir að Rúben Neves skoraði með skalla í uppbótartíma.

Portúgalir stjórnuðu ferðinni allan leikinn, þeir voru með boltann og sköpuðu mikið af færum en Írar vörðust af miklum eldmóð. Caoímhin Kelleher varði vítaspyrnu frá Cristiano Ronaldo á 78. mínútu og var Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari stoltur en svekktur að leikslokum.

Þetta var talsvert betri frammistaða heldur en í 2-1 tapi gegn Armeníu í síðasta landsleikjahléi, en einhverjir bjuggust við að Heimir yrði rekinn eftir það tap.

„Mér líður alveg eins og leikmönnunum, þetta var mjög sárt. Eftir að hafa lagt inn alla þessa vinnu þá fengum við sigurmarkið á okkur svona seint. Þetta var ekki fullkomin frammistaða hjá okkur en þetta var frábær liðsframmistaða. Strákarnir virkilega börðust fyrir hvorn annan," sagði Heimir við írska ríkissjónvarpið að leikslokum.

„Við lögðum mikla orku í þennan leik og við vörðumst vel stærsta hluta leiksins. Þegar tók að líða á leikinn urðu strákarnir sífellt þreyttari og þá byrjuðu fleiri opnanir að myndast.

„Okkur leið eins og við hefðum átt skilið að fá stig úr þessum leik miðað við hvað við lögðum mikla orku í þetta. Við vorum mjög nálægt því. Þeir fengu fleiri færi við, en við fengum líka einhverjar opnanir. Við vorum bara ekki nógu sniðugir þegar við fengum okkar tækifæri og það hefur spilað inn í að við vorum þreyttir eftir að hafa þurft að verjast svona mikið. Það vantaði upp á ákvarðanatökuna hjá leikmönnum þegar tækifærin gáfust.

„Við ættum að vera stoltir af þessari frammistöðu en við ættum ekki að vera ánægðir. Það er margt gott sem við getum tekið úr þessum leik, allir strákarnir lögðu sig fram og það var enginn farþegi. Strákarnir gáfu allt í þetta."


Írland er á botni F-riðils með eitt stig eftir þrjár umferðir. Írar gerðu jafntefli við Ungverjaland á heimavelli en eru búnir að tapa útileikjunum sínum gegn Portúgal og Armeníu.

Þeir eiga heimaleik gegn Armeníu á þriðjudaginn og þurfa á sigri að halda þar til að geta barist um annað sæti riðilsins.
Athugasemdir