
Sparkspekingurinn Baldur Sigurðsson segir að Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari þurfi að finna lausn á hægri bakvarðarstöðu Íslands til frambúðar.
Guðlaugur Victor Pálsson var í vandræðum í þessari stöðu gegn Úkraínu en enginn leikmaður hefur fest sig almennilega í sessi í hægri bakverðinum síðan Birkir Már Sævarsson hætti með landsliðinu.
Guðlaugur Victor Pálsson var í vandræðum í þessari stöðu gegn Úkraínu en enginn leikmaður hefur fest sig almennilega í sessi í hægri bakverðinum síðan Birkir Már Sævarsson hætti með landsliðinu.
„Þetta var ekki góður leikur hjá Gulla en ég skil ekki af hverju við þurfum að stilla honum upp í svona leik. Sviðsmyndin var eins og Arnar bjóst við, við vorum meira með boltann og Úkrína leyfði okkur að stjórna spilinu. Á móti svona góðum andstæðingum þá erum við að oft að lenda í því að hlaupa til baka í átt að okkar marki," segir Baldur í útvarpsþættinum Fótbolti.net.
„Þegar við erum að stýra leikjum viljum við hafa vel spilandi bakverði. Gulli var það einu sinni en er ekki sá leikmaður lengur. Við þurfum að finna leikmanninn sem við ætlum að hafa í þessari stöðu í 80% af leikjunum."
„Ég skil það alveg að nota Gulla í þriggja manna vörn eins og við gætum spilað gegn Frökkum. Bjarki Steinn (Bjarkason) er að að spila vængbakvörð hjá Venezia og er að spila mikið. Getum við ekki haft hann þarna? Getum við hjálpað Karli Friðleifi (leikmanni Víkings) að komast í atvinnumennsku og haft hann þarna? Hreinræktaður bakvörður með hæð og styrk. Það þarf að finna leikmanninn sem hefur eiginleikana sem við þurfum."
„Það hefur verið reynt með Alfons (Sampsted) og Bjarka Stein en það fær enginn traustið. Það tók Birki Má einhverja 30 landsleiki að verða góður hægri bakvörður í landsliðinu en hann fékk það traust."
Vill sjá Loga í vinstri bakverðinum
Baldur tjáði sig einnig um hina bakvarðarstöðuna, vinstri bakvörðinn, og vill sjá Loga Tómasson fá traustið þar. Mikael Egill Ellertsson var í vinstri bakverði gegn Úkraínu og skoraði en gerði svo hrikaleg mistök þegar hann hitti ekki boltann í teignum hinumegin og Úkraína skoraði.
„Maður fann mjög mikið til með honum þar. Ég held að hann viti ekki sjálfur hvað kemur fyrir þar. Það kemur eitthvað 'blakkát', hann er að drífa sig og það kemur upp eitthvað panikk. Hann ætlar að drífa sig að sparka boltanum í burtu," segir Baldur.
„Hann er alveg að leysa þetta fínt en mér persónulega finnst það óþarfi að vera að spila honum í vinstri bakverði þegar við getum verið að spila Loga sem átti frábæra innkomu gegn Úkraínu. Af hverju fær hann ekki traustið? Búinn að vera frábær í Tyrklandi í fyrstu leikjunum og var frábær í Noregi. Hann kom af bekknum gegn Úkraínu og var búinn að vera inná í tvær sekúndur þegar hann keyrði á manninn og kom með góða fyrirgjöf. Það er maður með sjálfstraust. Treystum honum fyrir þessu."
Athugasemdir