Man Utd í baráttuna um Wharton - Vilja ekki Tuchel í stað Amorim - Haaland til Real Madrid?
   sun 12. október 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Vináttulandsleikir: Balogun og Wright-Phillips skoruðu
James með stoðsendingar
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það fóru nokkrir æfingalandsleikir fram í gærkvöldi og í nótt, þar sem Giovani Lo Celso skoraði eina mark leiksins í sigri Argentínu.

Argentína spilaði við Venesúela í Miami og skoraði Lo Celso á 31. mínútu eftir undirbúning frá Lautaro Martínez.

Heimsmeistarar Argentínu voru talsvert sterkari aðilinn og sköpuðu mikið af færum án þess að takast að setja boltann í netið. Lionel Messi og aðrir leikmenn úr MLS deildinni tóku ekki þátt vegna þess að MLS tekur ekki landsleikjahlé.

Argentína mætti til leiks með ógnarsterkt lið gegn Venesúela þar sem mátti finna fjóra leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni, þrjá úr La Liga og tvo úr Serie A.

Bandaríkin gerðu þá jafntefli við Ekvador í Texas, þar sem gestirnir leiddu í hálfleik eftir að 35 ára gamall Enner Valencia tók forystuna.

Heimamenn voru sterkari aðilinn og verðskulduðu að jafna metin þegar Folarin Balogun skoraði eftir undirbúning frá Malik Tillman á 71. mínútu. Lokatölur 1-1.

James Rodríguez átti þá fyrstu tvær stoðsendingarnar í fjögurra marka sigri Kólumbíu gegn Mexíkó í Texas. Jhon Lucumí, miðvörður Bologna, skoraði eina markið í fyrri hálfleik en Luis Díaz og Jefferson Lerma, leikmenn FC Bayern og Crystal Palace, innsigluðu sigurinn eftir leikhlé áður en Johan Carbonero bætti fjórða markinu við.

Lokatölur 0-4 fyrir Kólumbíu þrátt fyrir nokkuð jafnan leik. Luis Malagón markvörður Mexíkó var skúrkur kvöldsins þar sem hann átti að gera betur í fyrstu þremur mörkunum.

Að lokum vann landslið Grenada 2-0 gegn Kúbu þar sem D'Margio Wright-Phillips skoraði fyrsta mark leiksins á áttundu mínútu.

D'Margio er sonur Shaun Wright-Phillips, fyrrum leikmanns Manchester City, Chelsea og enska landsliðsins. Það þýðir að Bradley Wright-Phillips, markahæsti leikmaður í sögu New York Red Bulls, er frændi hans og goðsögnin Ian Wright er afi hans.

D'Margio er uppalinn hjá Manchester City og kom við hjá Stoke City og Northampton áður en hann skipti yfir til Beerschot í Belgíu.

Argentína 1 - 0 Venesúela
1-0 Giovani Lo Celso ('31)

Bandaríkin 1 - 1 Ekvador
0-1 Enner Valencia ('24)
1-1 Folarin Balogun ('71)

Mexíkó 0 - 4 Kólumbía
0-1 Jhon Lucumi ('17)
0-2 Luis Diaz ('56)
0-3 Jefferson Lerma ('65)
0-4 Johan Carbonero ('87)

Grenada 2 - 0 Kúba
1-0 D'Margio Wright-Phillips ('8)
2-0 Markaskorara vantar ('42)
Athugasemdir
banner