Hinn 18 ára gamli Franco Mastantuono hefur verið sendur heim frá argentínska landsliðinu vegna smávægilegra meiðsla. Hann tók ekki þátt í 1-0 sigri gegn Venesúela á dögunum vegna meiðslanna.
Mastantuono er bráðefnilegur leikmaður sem er búinn að finna pláss í ógnarsterku byrjunarliði Real Madrid þrátt fyrir að vera ennþá táningur. Hann er búinn að skora eitt mark og leggja annað upp í níu fyrstu leikjunum sínum með stórveldinu, þar af var hann sjö sinnum í byrjunarliðinu.
„Mbappé tók mjög vel á móti mér hjá Real Madrid. Hann er ótrúlegur leikmaður og góð manneskja sem hefur komið mjög vel fram við mig strax frá fyrsta degi," sagði Mastantuono í viðtali við ESPN á dögunum, áður en hann var spurður út í bestu leikmenn heims í dag.
„Leo Messi er í fyrsta sæti og (Jude) Bellingham í öðru, hann er mjög sérstakur leikmaður. Svo kemur Julián Alvarez, einn af allra bestu leikmönnum heims."
Óljóst er hvort Mastantuono verður með í nágrannaslag gegn Getafe um næstu helgi. Búist er við að hann verði klár strax eftir helgi.
Athugasemdir