Matthijs De Ligt og Noussair Mazraoui voru kynntir í kvöld hjá enska félaginu Manchester United en báðir eru spenntir fyrir því að vinna aftur með hollenska stjóranum Erik ten Hag.
Leikmennirnir voru báðir í liði Ajax á meðan Ten Hag var við stjórnvölinn.
Mazraoui kom upp úr unglingaliði Ajax árið 2017 á meðan De Ligt kom inn í aðalliðið ári áður.
Þeir unnu bæði deild- og bikar tímabilið 2018-2019, ásamt því að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. Einnig fóru þeir í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.
De Ligt fór frá Ajax sumarið 2019 og samdi við Juventus á meðan Mazraoui fór til Bayern München á sama tíma og Ten Hag tók við Manchester United.
Allir þrír hafa nú verið sameinaðir á ný.
„Erik ten Hag mótaði byrjun ferilsins, þannig hann veit hvernig hann getur náð því besta úr mér og get ég ekki beðið eftir að vinna aftur með honum. Ég veit hvað þarf til þess að ná árangri á hæsta stigi og er ákveðinn í að halda því áfram hjá þessu sérstaka félagi,“ sagði De Ligt um Ten Hag.
Mazraoui tók undir það í viðtali við heimasíðu félagsins.
„Ten Hag spilaði mikilvæga rullu í þróun minni sem leikmaður, þannig það er spennandi að fá tækifærið til að endurnýja kynnin, nú þegar ég er kominn á bestu ár ferilsins. Ég veit við hverju hann býst frá leikmönnum og mun ég gefa allt til að hjálpa hópnum að ná árangri,“ sagði Mazraoui, svona keimlíkt því sem De Ligt sagði um stjórann.
Ten Hag hefur alls fengið fimm leikmenn sem hann þjálfaði hjá Ajax en þeir Lisandro Martínez, André Onana og Antony eru einnig á mála hjá félaginu.
Athugasemdir