Ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio segir að morgundagurinn gæti verið 'Guðmundsson-dagurinn' hjá Fiorentina, en hann er að ganga í raðir félagsins frá Genoa.
Fiorentina hefur lengi vel haft áhuga á Alberti og hafnaði Genoa meðal annars tilboði þeirra fjólubláu í íslenska landsliðsmanninn í janúarglugganum.
Í byrjun sumars var Albert sterklega orðaður við AC Milan, Inter, Juventus og Napoli, en nú er allt útlit fyrir það að hann sé á leið til Fiorentina.
Di Marzio segir að viðræðum sé að miða áfram og nú sé stutt í að allt verði klappað og klárt. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær hann klæðist treyju Fiorentina.
Genoa hefur þegar sent Wolves tilboð í portúgalska framherjann Fabio Silva og má búast við svari síðar í þessari viku en félagið sér hann sem arftaka Alberts.
Kaupin á Alberti hjálpa einnig Juventus sem er að reyna við argentínska leikmanninn Nicolas Gonzalez. Fiorentina hefur ekki viljað selja hann til þessa, en nú gæti félagið verið opið fyrir því að leyfa honum að fara.
Fiorentina hefur tvisvar á síðustu tveimur árum komist í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu. Flórensarliðið hafnaði í 8. sæti Seríu A á síðustu leiktíð og fer því í umspilið í forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Athugasemdir