„Við erum á góðu róli og ég er búinn að koma mér inn í liðið. Við unnum í fyrradag og erum á fínu róli núna. Það er gott að spila alla leiki, þá líður manni best og líka gott að koma hingað og spila hörkuleiki,“ segir Benóný Breki Andrésson leikmaður Stockport og U21 árs landsliðsins.
Fótbolti.net ræddi við Benóný fyrir æfingu U21 árs landsliðsins fyrr í dag.
Lestu um leikinn: Lúxemborg U21 0 - 0 Ísland U21
Benóný gekk til liðs við Stockport undir lok síðasta árs og segir hann lífið í Englandi vera ljúft.
„Þetta hefur verið draumur frá því að maður var lítill að spila á Englandi. Gott að komast í þessa menningu, það gengur auðvitað allt út á fótbolta í Englandi. Stuðningurinn og allt í kringum þessa leiki er geggjaður.“
Færðu mikið áreiti á götum Stockport?
„Já, sérstaklega í Stockport. Eitthvað smá en ekki mikið í Manchester. En í Stockport gerist það meira.“
U21 landsliðið mætir Lúxemborg á morgun en liðið er með tvö stig eftir þrjá leiki en þeir gerðu markalaust jafntefli við Sviss síðastliðinn föstudag.
„Lúxemborg er hörkulið. Við þurfum að mæta almennilega á morgun. Mér fannst við góðir gegn Sviss, við áttuðum okkur á því að það yrði hörkuleikur. Það var lið með góða einstaklinga og við gerðum vel, þá sérstaklega varnarlega. Það vantaði bara upp á herslumuninn á síðasta þriðjungnum.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.