Brasilíski vinstri bakvörðurinn Alex Sandro mun yfirgefa Juventus eftir þessa leiktíð en þetta segir ítalski blaðamaðurinn Matteo Moretto.
Alex Sandro er 33 ára gamall og verið á mála hjá Juventus frá 2015 en hann kom frá portúgalska liðinu Porto fyrir um 26 milljónir evra.
Á þessum níu árum hefur hann spilað yfir 300 leiki og skorað 15 mörk. Brasilíumaðurinn hefur unnið tíu titla en nú er komið að kveðjustund.
Samningur hans við Juventus er að renna út og ekki stendur til að framlengja. Leikmaðurinn hefur tekið ákvörðun um að halda aftur heim til Brasilíu, en fjölmörg félög eru í sambandi við umboðsmann hans.
Sandro ólst upp hjá Atletico Paranaense og er það talinn líklegasti áfangastaður en Santos á einnig stóran stað í hjarta hans. Sandro vann Copa Libertadores og brasilísku deildina er hann var á láni hjá félaginu frá 2010 til 2011.
Um tíma var Alex Sandro einn besti vængbakvörður heims og var meðal annars í liði ársins í Seríu A tvö tímabil í röð.
Athugasemdir