„Mannskapurinn er einbeittur og tilbúinn fyrir morgundaginn," segir Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, við Fótbolta.net, en framundan er leikur gegn Egnatia í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Um seinni leik liðanna er að ræða, albönsku meistararnir leiða með einu marki eftir fyrri leikinn sem fram fór í Albaníu. Á Kópavogsvelli, klukkan 19:00 annað kvöld, verður flautað til leiks í seinni leiknum.
Sigurliðið í einvíginu fer áfram í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar og mætir þar pólsku meisturunum í Lech Poznan, en tapliðið fer í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildarinnar og mætir þar tapliðinu úr einvígi búlgarska liðsins Ludogorets og Dinamo Minsk frá Belarús.
„Ég býst við að þeir muni tiltölulega fljótt reyna hægja á leiknum; tefja og falla til baka. Þetta verður kannski þolinmæðisverk, við munum klárlega stýra leiknum, þurfum að passa að halda tempóinu uppi þegar færi gefst og vera þolinmóðir á sama tíma."
„Fyrri leikurinn var nokkuð jafn, ekki mikið um færi og jafntefli hefði sennilega verið sanngjörn og eðlileg niðurstaða, en þeir náðu marki í lokin. Þetta er flott lið, en þetta verður allt annar leikur hér á Kópavogsvelli."
„Ég tel möguleikana frekar góða, við erum auðvitað undir í hálfleik og þetta er gott lið, en ég lít á þetta þannig að það sé í okkar höndum að moka þessu yfir línuna á morgun."
Sigumark Egnatia í fyrri leiknum kom í uppbótartíma og fögnuðu heimamenn gríðarlega mikið. Fór það í taugarnar á ykkur?
„Nei nei, ég skil þá svo sem alveg, sigurmark seint í leiknum, geðshræringar sem fylgdu því. Maður var ekki að lesa meira í það."
Regi Lushkja fékk sitt annað gula spjald í fagnaðarlátunum og verður ekki með á Kópavogsvelli.
„Dómarinn var búinn að brýna fyrir öllum að það yrði spjaldað ef menn væru að hlaupa úr boðvangnum, hann hefur bara gleymt sér."
Það er bongó á Íslandi í dag, Höskuldur var spurður hvort það hjálpi Albönunum frekar en Blikum.
„Ég held að það eigi að draga ský fyrir sólu á morgun, við vonum að það komi jafnvel smá rigning og kólni aðeins, en við erum svo sem ekkert að pæla í því," segir fyrirliðinn.
Athugasemdir