Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   sun 14. ágúst 2022 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
„Lisandro getur ekki verið miðvörður í úrvalsdeildinni"
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Jamie Redknapp er fótboltasérfræðingur hjá Sky Sports og tjáði sig um Lisandro Martinez, lágvaxinn miðvörð Manchester United, eftir 4-0 tap gegn Brentford.


Martinez réði ekki við stóra og sterka leikmenn Brentford og var skipt út í hálfleik fyrir Raphaël Varane. Argentínumaðurinn réði til að mynda engan veginn við Ben Mee þegar hann skoraði þriðja mark heimamanna.

Redknapp segir málið vera einfalt. Leikmaðurinn er alltof lítill að spila sem miðvörður í ensku úrvalsdeildinni.

„Þú getur ekki verið samkeppnishæfur miðvörður í ensku úrvalsdeildinni þegar þú ert 175cm á hæð. Hann stóð sig vel í Hollandi því það er öðruvísi deild - hérna ertu að mæta liðum í hverri viku sem munu finna og nýta sér hvern einasta veikleika. Brighton og Brentford gerðu það í fyrstu tveimur umferðunum og Liverpool mun gera það í næstu umferð," sagði Redknapp.

„Hann er næstum of lítill til að vera miðjumaður, hvað þá miðvörður. Hann mun þurfa aðlögunartíma og svo getur hann kannski spilað á miðjunni því þetta er mjög góður fótboltamaður. Hann á bara ekki að spila sem miðvörður í þessari deild."

Gary Neville tók undir með kollega sínum og benti á að hann sjálfur hafi verið alltof lágvaxinn til að spila sem miðvörður á sínum ferli sem hægri bakvörður.

„Þegar ég heyrði að hann væri 175cm á hæð þá fór ég aftur í tímann og hugsaði til þess þegar ég spilaði sem miðvörður á mínum yngri árum. Ég var miðvörður upp yngri flokkana og í varaliðinu og spilaði svo líklega 40 eða 50 af fyrstu 150 leikjunum mínum í miðverði. Ég var líka með Paul Parker (170cm) sem fyrirmynd, hann var frábær miðvörður.

„Ég vildi vera miðvörður en ég höndlaði það ekki nógu vel líkamlega. Ég lenti alltof oft í aðstæðum þar sem ég tapaði einvígum við stærri og sterkari sóknarmenn þannig ég var alltaf settur út í bakvörðinn á endanum. Sir Alex Ferguson reyndi að nota mig sem miðvörð af og til næstu þrjú til fjögur árin en að lokum varð ég bara hægri bakvörður.

„Lisandro væri bestur vinstra megin í þriggja manna varnarlínu eða á miðjunni því við vitum að hann er góður þar. Hann lítur út fyrir að vera flottur leikmaður en núna er of snemmt til að dæma hann. Það er bara ekki hægt að nota hann sem miðvörð í fjögurra manna varnarlínu gegn Toney og Mbeumo. Hann hefur ekki líkamsstyrkinn til að halda í við þá.

„Ég hafði ekki styrkinn þegar ég var yngri og ég taldi mig vera góðan miðvörð. Ég þurfti oft að skipta um stöðu við Gary Pallister og þegar ég sá Lisandro skipta um stöðu við Harry (Maguire) í innköstum Brentford þá hugsaði ég strax til baka."


Athugasemdir
banner
banner
banner