banner
   mán 14. september 2020 12:08
Elvar Geir Magnússon
Vissir um að halda Sancho - Hvað gerir Solskjær?
Jadon Sancho.
Jadon Sancho.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United.
Mynd: Getty Images
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að forráðamenn Borussia Dortmund séu handvissir um að Jadon Sancho fari ekki frá félaginu fyrir gluggalok.

Þessi tvítugi vængmaður hefur verið orðaður við Manchester United en félögin hafa ekki komist að samkomulagi um kaupverð.

Ole Gunnar Solskjær vill bæta við sig vængmanni og er sagður vera farinn að skoða aðra kosti.

Ensku slúðurblöðin hafa þar nefnt Gareth Bale hjá Real Madrid og Ivan Perisic hjá Inter, báðir eru 31 árs.

Solskjær hefur verið í þeirri stefnu að fá unga og orkumikla leikmenn til Manchester United en gæti þurft að sætta sig við skammtímalausn að þessu sinni.

Dortmund vill fá yfir 100 milljónir punda fyrir Sancho en félagið keypti enska landsliðsmanninn fyrir 10 milljónir punda frá Manchester City 2017.

Manchester United er ekki tilbúið að ganga að þessum verðmiða en félagið tapar um 5 milljónum punda á hverjum leik sem er leikinn bak við luktar dyr vegna heimsfaraldursins.

Félagaskiptaglugganum verður lokað þann 5. október en eina alvöru nafnið sem United hefur fengið til sín er hollenski miðjumaðurinn Donny van de Beek sem keyptur var frá Ajax á 35 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner