Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fim 14. desember 2023 15:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spilar Viðar Örn í 2. deild? - Selfyssingar tjá sig ekki um sögusagnir
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Snýr Viðar aftur á Selfoss fyrir næsta sumar?
Snýr Viðar aftur á Selfoss fyrir næsta sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Núna gengur sú saga að sóknarmaðurinn Viðar Örn Kjartansson muni snúa aftur til Íslands fyrir næsta sumar og ganga í raðir uppeldisfélags síns, Selfoss. Formaður knattspyrnudeildar félagsins vildi ekki tjá sig um sögurnar þegar leitast var eftir því.

Ef þessi saga myndi raungerast, þá yrði það svo sannarlega áhugavert og hvað þá sérstaklega í ljósi þess að Selfoss leikur í 2. deild næsta sumar eftir að hafa fallið úr Lengjudeildinni.

Viðar er félagslaus en hann hefur fengið sig lausan frá CSKA 1948 í Búlgaríu, hann spilaði síðast fyrir liðið í október.

„Hann er að koma til Íslands og er að fara í Selfoss, segja einhverjir," sagði Hjörvar Hafliðason í Dr Football á þriðjudag. „Ef Viðar Örn nennir því, þá skorar hann 30 mörk í C-deild. Hann getur skorað fjögur til fimm sumur í viðbót á Íslandi ef hann er í standi."

Það yrði gríðarlega mikill fengur fyrir Selfoss að fá Viðar Örn heim en hann yrði í raun alltof góður til að spila í 2. deild. Fótbolti.net heyrði í Leó Árnasyni, formanni knattspyrnudeildar Selfoss, í dag og spurði hann út í þessar sögusagnir.

„Við erum eins og öll önnur félög að leita að styrkingu. Við tjáum okkur svo sem ekki um einstök atriði í því. Við tilkynnum það þegar við fáum leikmann, þá látum við ykkur vita. Sögusagnir eru bara til og er skemmtilegur angi fótboltans," sagði Leó við Fótbolta.net.

„Ég tjái mig ekki um það hvort við séum að tala við einhvern einn eða annan."

Öflugur ferill erlendis
Viðar Örn, sem er 33 ára gamall, hóf feril sinn með Selfossi en spilaði einnig með ÍBV og Fylki hér á landi.

Hann hefur þá spilað erlendis með Vålerenga í Noregi, Malmö og Hammarby í Svíþjóð, Jiangsu Suning í Kína, Maccabi Tel Aviv í Ísrael, Rostov og Rubin Kazan í Rússlandi, Yeni Malatyaspor í Tyrklandi, Atromitos í Grikklandi og nú síðast CSKA 1948 í Búlgaríu.

Ekki náðist í Viðar Örn við vinnslu þessarar fréttar.
Athugasemdir
banner
banner
banner