Juve reynir við Kolo Muani og Zirkzee - Mateta orðaður við Spurs - Fundað um Maguire
   fim 29. janúar 2026 10:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mourinho: Í fyrsta skiptið sem ég upplifi eitthvað svona
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Anatoliy Trubin skoraði í gær mark á lokasekúndum leiks Benfica og Real Madrid. Trubin er markvörður Benfica og var sendur inn á vítateig Real þrátt fyrir að Benfica væri að vinna leikinn. Staðan var þannig að Benfica þurfti eitt mark til viðbótar til að komast í umspilið um sæti í 16-liða úrslitunum.

Benfica fékk aukaspyrnu á vallarhelmingi Real sem Fredrik Aursnes tók og teiknaði beint í hlaupaleið Trubin sem skallaði boltann í netið - eins og hann hefði gert það margoft áður.

Jose Mourinho, stjóri Benfica, var eðlilega mjög kátur með sinn mann.

„Ég er vanur að segja að ég hef séð allt áður, allt sé 'deja vu', en þetta var í fyrsta skiptið sem ég upplifi eitthvað svona. Við vissum að Trubin gæti gert þetta, við vorum að tapa í Porto fyrir nokkrum vikum og hann skoraði næstum því gegn þeim. Við vissum því að stóri maðurinn hefði þetta í sér. Auðvitað eru gæði fyrirgjafarinnar það mikilvægasta, þú verður að setja boltann þangað. En þetta er stórkostlegt mark hjá manninum," segir Mourinho.

Stjórinn var búinn að gera allar breytingarnar sem hann mátti gera á liðinu, hann hafði fengið þau skilaboð að staðan 3-2 dugði til. Það varð breyting á því í lok leiks en þá gat hann ekki gert fleiri breytingar.

„Þegar ég gerði síðustu breytingarnar þá var mér sagt að þetta væri nóg (til að ná umspilssæti), svo ég ætlaði að loka fyrir. Nokkrum sekúndum seinna fæ ég að heyra að við þurfum eitt mark í viðbót. Það var heppni fyrir okkur að fá þessa aukaspyrnu og gátum sent stóra manninn fram," sagði Mourinho eftir leikinn.

Það var ekki óverðskuldað að Benfica ynni leikinn. Liðið skapaði mun fleiri dauðafæri í leiknum og var tölfræðilega betra liðið á Estadio da Luz leikvanginum í Lissabon. Benfica mun mæta annað hvort Real Madrid eða Inter í umspilinu um sæti í 16-liða úrslitum, en dregið verður um það á morgun.
Athugasemdir
banner
banner