banner
   lau 15. janúar 2022 17:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viktor Karl eftir fyrsta verkefnið: Gefur manni von
Icelandair
Viktor Karl Einarsson.
Viktor Karl Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikarnir Viktor Karl og Höskuldur á landsliðsæfingu.
Blikarnir Viktor Karl og Höskuldur á landsliðsæfingu.
Mynd: KSÍ
„Þetta er fyrst og fremst heiður, einhvers konar verðlaun fyrir vel unnin störf," sagði Viktor Karl Einarsson eftir landsleik gegn Suður-Kóreu í dag.

Viktor Karl var að spila sinn annan A-landsleik fyrir Íslands hönd. Hinn leikurinn kom gegn Úganda í vikunni.

„Maður er stoltur að vera kominn inn í þennan hóp fyrir þetta verkefni, fá smjörþefinn af þessu. Það gefur manni von um að spila fyrir landsliðið og lætur mann vinna enn harðar að því að fá fleiri leiki."

Erfiður leikur í dag
Leikurinn í dag var erfiður gegn sterku liði Suður-Kóreu. Ísland tapaði 5-1 á endanum.

„Við töluðum um að fyrri hálfleikur var mjög erfiður. Við vorum að hlaupa mikið af óþarfa hlaupum og náðum ekki að setja pressu á þá til að vinna boltann. Þeir fóru illa með okkur með einnar snertingar fótbolta og skoruðu góð mörk. Við komum sterkari út í seinni hálfleikinn; við breyttum hvernig við vildum pressa og vinna boltann, og það gekk betur. Við hefðum getað skapað fleiri færi þar sem við bjuggum til nokkrar ákjósanlegar stöður sem hefðu getað farið aðeins betur."

Það var mikill munur á Suður-Kóreu og Úganda. Andstæðingurinn í dag var mikið sterkari.

„Það eru engar tilviljanir í því sem þeir eru að gera, þeir voru allir rosalega samstilltir. Það er mikill munur á þessu liði og Úganda. Þeir voru hraðari í öllum sínum aðgerðum og refsuðu um leið og við gáfum færi á því. Þeir voru snöggari í öllum sínum aðgerðum en Úganda."

Sjö Blikar
Í byrjunarliðinu í dag voru sjö leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki. Viktor Karl er enn leikmaður Blika og segir hann að félagið sé að gera eitthvað rétt.

„Það var gaman. Við sáum þetta sjálfir. Það voru nokkrir sem höfðu spilað leik með Blikum og það var mjög gaman. Það hefði mátt vera meiri tenging (e. chemistry) á milli okkar. Ég, Gísli, Höggi og Damir spilum reglulega saman og það hefði verið gaman að ná augnablikum þar sem við myndum ná einhverju spili. Í þessum leik var það mjög erfitt, en þetta var heiður fyrir okkur alla og sýnir að Breiðablik er að gera eitthvað rétt," sagði Viktor Karl.

Sáttur með varnarvinnuna
Viktor var að lokum spurður út í það hvernig hann sjálfur meti það hvernig hann kemst frá þessu verkefni.

„Mér finnst ég hafa komist frá þessu ágætlega. Ég er sáttari með hvernig ég skilaði varnarvinnu í þessu verkefni. Það gekk best ef ég tala um mig persónlega; hvernig pressan gekk upp, það sem var ætlast til af mér - það gekk fínt. Ég hefði viljað gera meira með boltann og fram á við, þar sem maður er kannski bestur í.“

Núna fer Viktor aftur heim til Íslands. Það verður fróðlegt að sjá hversu marga landsleiki hann kemur til með að spila í viðbót.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner