Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 15. mars 2023 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aftur fengu Blikar góð tíðindi úr meiðslamyndatöku
Karitas í leik með Breiðabliki.
Karitas í leik með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karitas Tómasdóttir, lykilmaður í liði Breiðabliks, var ekki á skýrslu þegar liðið mætti ÍBV í Lengjubikarnum í gær. Breiðablik vann leikinn 2-0 og kom sér á toppinn í B-riðli Lengjubikars kvenna.

Karitas hefur spilað einn leik í Lengjubikarnum en hún fór af velli eftir um hálftíma leik í 0-8 sigri liðsins gegn Tindastóli þann 25. febrúar síðastliðinn.

Heyrst hafði að meiðslin væru af alvarlegum toga, en Karitas segir í samtali við Fótbolta.net að þau séu ekki það alvarleg þó það hafi verið óttast um það í fyrstu. Myndataka sýndi aðeins lítið beinmar og væga brjóskskemmd.

Verið er að meta meiðslin frá degi til dags en það er vonandi að Karitas verði klár þegar Besta deildin byrjar að rúlla þann 25. apríl næstkomandi. Breiðablik á stórleik strax í fyrstu umferð þar sem þær mæta Íslands- og bikarmeisturum Vals í opnunarleiknum.

Breiðablik hefur verið að fá góðar fréttir í tengslum við meiðsli síðustu daga. Óttast var að Katrín Ásbjörnsdóttir hefði slitið krossband í leik gegn Stjörnunni síðasta föstudag en hún fékk frábærar fréttir úr myndatöku í kjölfarið.

„Besta niðurstaða sem ég hefði getað fengið," sagði Katrín í samtali við Fótbolta.net á dögunum en hún verður frá í um 4-6 vikur með tognun í liðbandi og beinmar.

Hægt er að hlusta á umræðu um Breiðablik í Heimavellinum hér fyrir neðan en liðinu er spáð ágætu gengi í Bestu deildinni í sumar.
Heimavöllurinn: Ótímabær spá fyrir Bestu deildina 2023
Athugasemdir
banner
banner